Dvínandi hamingja meðal Austfirðinga
Árið 2018 sögðust 63% karlmanna og 64,1% kvenna á Austurlandi telja sig hamingjusama einstaklinga. Samkvæmt nýjustu niðurstöðum frá síðasta ári er að fækka töluvert í þessum hópi; aðeins 51,5% karla og 59,9% kvenna sögðu hamingjuna enn ráða hugarfylgsnum.
Þetta má lesa úr nýbirtum tölum í Lýðheilsuvísi landsmanna sem Landlæknir heldur úti en á þeirri vakt er grannt fylgst með heilsuhegðun og líðan fullorðinna einstaklinga og þróun helstu áhrifaþátta heilbrigðis. Tölurnar þær bæði fengnar gegnum skýrslur heilbrigðisstofnanna á hverjum stað og með formlegum könnunum ár hvert.
Orðið hamingja merkir auðvitað mismunandi hluti fyrir mismunandi fólk. Ástin gerir marga hamingjusama, aðrir hamingjusamir vegna sterkra fjölskyldu- og vinatengsla, sumir finna tilgang og hamingju með vinnu sinni og verkum meðan enn aðrir segja sanna hamingju fólgna í góðri heilsu.
Hver sem skilgreiningin er er ljóst af tölum Lýðheilsuvísisis að sífellt færri fanga hamingjuna bæði austanlands og annars staðar í landinu. Þrátt fyrir þessa fækkun hamingjusamra í fjórðungnum austfirska eru það einungis íbúar á Vesturlandi sem segjast hamingjusamari heilt yfir en Austfirðingar. Á þeim slóðum voru 59,1% karla og kvenna fullviss um hamingju sína en hlutfallið austanlands 55,4%. Norðlendingar virðast helst fara á mis við hamingjuna því þar er prósentan hjá bæði konum og körlum aðeins 50,1%.
Enn telja fleiri Austfirðingar sig hamingjusama en ekki samkvæmt könnunum en hlutfallið hefur lækkað mikið. Myndin tengist efninu ekki beint.