Dýpkun Eskifjarðarhafnar eitt skrefið í hraðri uppbyggingu

Dýpkunarskipið Álfsnes hefur verið við störf við Eskifjarðarhöfn undanfarnar tvær vikur. Dýpkunin er enn eitt skrefið í hraðri uppbyggingu á svæðinu við Leirur í botni Eskifjarðar.

Dýpkunarskipið hóf vinnu 13. júní og lýkur fyrsta áfanga hennar á morgun. Því hefur verið ætlað að dýpka niður á tíu metra við höfnina inni við Leirur. Birgitta Rúnarsdóttir, verkefnastjóri Fjarðabyggðarhafna, segir verkið þó ekki hafa gengið jafn hratt og vonast var til því sjávarbotninn sé mjög harður á svæðinu.

Mikil og hröð uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu inni við Leirur undanfarin tíu ár eða svo. Hún hófst með landfyllingu með efni úr Norðfjarðargöngum. Þar reis síðan nýtt uppsjávarfrystihús Eskju árið 2016. Síðan hefur hefur bæst við frystigeymsla og þurrgeymsla.

Í byrjun desember 2022 var lokið við að steypa nýjan 150 metra langan hafnarkant á svæðinu. Dýpkunin hefur verið í nágrenni hans. Með framkvæmdunum á að vera hægt að koma stærri flutningaskipum upp að bryggjunni þannig hægt verði að koma afurðum Eskju beint út í skip.

Gunnar Jónsson, bæjarritari, segir að viðlegupláss skipa Eskju aukist einnig með framkvæmdunum en það hefur skort. Með framkvæmdunum sé ráðist í svipaðar breytingar og í Neskaupstað þar sem skipunum er búið betra rými við athafnasvæði fyrirtækjanna frekar en við bryggjur í miðjum bæjunum.

Eftir er að ganga frá landinu við hafnarkantinn. Það er ekki á framkvæmdaáætlun í ár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.