Dyrnar alltaf opnar hjá sparisjóðsstjóranum

Vilhjálmur G. Pálsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Austurlands, lætur af störfum í haust eftir 20 ára starfa. Hann segir nánd við viðskiptavini helsta kost sjóðsins.

Vilhjálmur tók við starfinu í október 2004 þannig hann hefur verið slétt 20 ár í starfi þegar hann hættir í október. Hann verður 65 ára 21. dag þess mánaðar og segist fyrir nokkru hafa tekið ákvörðun um að þá væri gott komið. „Maður eldist eins og gengur. Mér finnst kominn tími á þetta, fólk á ekki að hanga of lengi í svona störfum.“

Vilhjálmur er uppalinn Austfirðingur, ættaður frá Brekku í Mjóafirði þar sem hann ólst upp frá 3-7 ára aldurs en flutti svo til Seyðisfjarðar, nam á Eiðum, Laugarvatni og í Reykjavík.

Hann byrjaði að vinna í Alþýðubankanum nýútskrifaður úr viðskiptafræði árið 1984 og varð aðalbókari hans áður en honum bauðst að taka við starfi sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Ársskógsstrandar árið 1988, aðeins 29 ára gamall.

„Við ætluðum ekkert að fara frá Reykjavík, við ákváðum bara að prófa þetta. Svo þegar maður er komin með börn þá er svo þægilegt og gott að vera úti á landsbyggðinni að við vildum ekkert fara til baka suður.“ Fjölskyldan kom síðan austur 1997 þegar Vilhjálmur varð skrifstofustjóri Sparisjóðs Norðfjarðar, sem varð að Sparisjóði Austurlands árið 2015.

Sparisjóðirnir fóru illa í hruninu


Miklar breytingar hafa orðið á sparisjóðunum þennan tíma. Þeir voru 25 árið 2000 en eru fjórir í dag. Þeim fækkaði hratt í kringum fjármálahrunið haustið 2008.

„Hlutur sparisjóðanna í fjármálakerfinu var kannski um fjórðungur fyrir hrun. Síðan féllu þeir einn af öðrum, við þessir minnstu héldum velli af því við vorum kannski ekki með mikið af eignum í hlutabréfum eða markaðsbréfum, sem fuðruðu auðvitað upp þarna.

Verkefnið í hruninu og eftir það var að halda rekstrinum gangandi og koma þessu aftur á lappirnar. Það hafðist, meðal annars með styrkri samvinnu sjóðanna fjögurra sem eftir eru en auðvitað með aðstoð fleiri,“ segir Vilhjálmur.

En auðvitað tapaði Sparisjóður Norðfjarðar peningum í hruninu, eins og flestir aðrir. Í ársbyrjun 2009 var stofnfé aukið um rúmar 250 milljónir, þar sem mest fé kom frá Fjarðabyggð, SÚN og Stapa lífeyrissjóði auk fyrirtækja og heimamanna. Árið 2010 var sparisjóðurinn svo endurfjármagnaður þegar Seðlabankinn samþykkti að breyta hluta af skuldum í stofnfé, víkjandi lán og afskrifa um 260 milljónir.

Árið 2015 var sparisjóðnum svo breytt í hlutafélag og á sama tíma tekið upp nafnið Sparisjóður Austurlands. Ríkissjóður á tæpan helmingshlut, Fjarðabyggð tæpan fjórðung en aðrir minna. Rekstur sjóðsins hefur gengið vel síðustu ár „Afkoma hefur verið mjög vel viðunandi, þó hún sé ekki á pari við stóru bankana. Sígandi lukka er best í þessu,” segir Vilhjálmur.

Svarað í síma og dyrnar alltaf opnar


Spurður hvaða augum hann líti framtíð Sparisjóðsins, og sparisjóðareksturs á Íslandi, nú þegar styttist í að hann láti af störfum svarar Vilhjálmur að hann líti hana nokkuð björtum augum. Staðan ætti því að vera góð þegar Þuríður Jónsdóttir tekur við af Vilhjálmi í haust.

„Við erum bara á okkar hillu í fjármálaflórunni. Hér eru ákvarðanir teknar stutt frá viðskiptavinum, um lánveitingar og annað, og við því í færum til að veita fólki persónulega þjónustu. Hér svarar starfsfólk líka í síma, viðskiptavinir geta hringt beint í síma starfsmanna og fengið aðstoð og úrlausn sinna mála.

Ég sjálfur er þar engin undantekning, ég hringi alltaf til baka ef ég get ekki tekið símann. Dyrnar hjá mér eru líka opnar allan daginn, ég tek fundi með fólki þó ég sé með önnur verkefni undir, þau verða þá bara að bíða. Við einbeitum okkur að því að þjónusta viðskiptavini okkar og gera það vel.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.