Skip to main content

Eftirspurn, lífsgæði og náttúra en lítt gengur að fjölga íbúum Austurlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. maí 2025 15:26Uppfært 08. maí 2025 16:17

Allnokkuð fleiri íbúar bjuggu á Austurlandi árin 1970, 1980 og 1990 en gera þann herrans dag 8. maí 2025 samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands þrátt fyrir að heilt álver hafi tekið til starfa í millitíðinni í fjórðungnum. En hvernig má fjölga íbúum svæðisins og hvernig verður það best gert?

Það er spurning dagsins á sérstöku málþingi sem Austurbrú stendur fyrir í gamla skólanum að Eiðum á morgun föstudag og hefst það þing klukkan 13 stundvíslega. Fyrirsögn fundarins er Fjölmennara Austurland og eins og nafnið gefur til kynna er íbúafjölgun á svæðinu þema fundarins.

Málefnið mikilvægt mjög því sífellt fjölgar þeim einstaklingum sem setja sig niður á suðvesturhorni landsins og berjast þar hart um hvern einasta fermetra íbúðarhúsnæðis og ekki síður mikið til sömu störfin. Það á sama tíma og austanlands eru húsnæðismál að batna hratt, eftirspurn hefur lengi verið eftir auknu vinnuafli og laun jafnvel nokkuð yfir pari samanborið við það sem gerist annars staðar í landinu.

Til að reyna að svara ofangreindri spurningu verða tveir fræðimenn með erindi af þessu tilefni. Þar fyrstur Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur við Háskólann á Akureyri en í kjölfarið bætir Vífill Karlsson, prófessor við Háskólann að Bifröst, við sinni sýn. Í lokin stíga á stokk þrír ungir Austfirðingar sem lýsa því hvað hugsanlega vanti á Austurlandið til að heillandi geti verið fyrir fólk að gera sér langtímabúsetu í fjórðungnum.

Málþingið hefst í kjölfar ársfundar Austurbrúar og aðalfundar Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi sem fram fara fyrr um daginn og eru allir áhugasamir velkomnir.