Skip to main content

Eftirvænting vegna fyrstu sameiginlegu föstudagsopnunar félagsmiðstöðva Fjarðabyggðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. mar 2025 11:17Uppfært 05. mar 2025 11:35

Af hálfu Fjarðabyggðar er nú verið að leggja lokahönd á allra fyrstu sameiginlegu föstudagsopnun félagsmiðstöðva sveitarfélagsins sem ungmennin þar hafa kallað eftir um langa hríð. Þá gefst ungmennunum tækifæri til að hittast, kynnast og styrkja tengsl undir einu og sama þakinu.

Um er að ræða byrjun á glænýju tilraunaverkefni sveitarfélagsins en allmörg ár eru síðan ungmennin sjálf fóru að leita hófa með hvernig mætti auka samskipti þeirra millum í nokkuð dreifðum byggðakjörnum Fjarðabyggðar. Ungmennaráð sveitarfélagsins hefur einnig lagt áherslu á að koma slíku á koppinn.

Ákveðið var á fundi fjölskyldunefndar Fjarðabyggðar fyrir tæpum mánuði síðan að prófa slíka sameiginlega opnun frá og með marsmánuði og út skólaárið. Þá munu ungmenni úr öllum félagsmiðstöðvum koma öll saman í íþróttahúsinu á Reyðarfirði og njóta samveru og leikja frameftir kvöldi.

Magnús Árni Gunnarsson, stjórnandi íþrótta- og frístundamála hjá Fjarðabyggð, segir unnið að undirbúningi skemmtilegrar dagskrár í samvinnu við ungmennin og eftirvænting sé sannarlega í loftinu.

Sveitarfélagið mun skipuleggja rútuferðir þegar til kemur til og frá öllum byggðakjörnum sínum nema tveimur. Þar um að ræða Stöðvarfjörð og Breiðdalsvík þar sem ekki hefur tekist að koma á ferðum vegna þessa. Á móti er sveitarfélagið reiðubúið að greiða foreldrum eða forráðamönnum sem geta eða vilja aka ungmennum frá þeim stöðum til Fáskrúðsfjarðar kílómetragjald fyrir viðvikið.