„Ég á fólk sem væri ekki á lífi ef flugvöllurinn væri ekki á þessum stað.“

Allir tíu oddvitar þeirra flokka sem fram bjóða í Norðausturkjördæmi fyrir komandi kosningar eru á einu máli um að Reykjavíkurflugvöllur skuli hvergi fara. Staðsetning hans sé hreint og beint þjóðaröryggismál.

Frambjóðendurnir komu fram í gærkvöldi á sérstökum framboðsfundi Austurfréttar og Austurgluggans í Valaskjálf á Egilsstöðum og þar reyfuð ýmis þau mál er brenna á austfirskum kjósendum. Allstór hópur fólks sendi fyrirfram inn spurningar til frambjóðendanna sem fengu tiltekinn takmarkaðan tíma til svara svo ekki yrði um neinar framboðsræður að ræða.

Ein sú spurning sem brunnið hefur lengi, og brennur enn, á íbúum Austurlands og líkast til víðast á landsbyggðinni er hvort það mikla öryggisnet sem staðsetning Reykjavíkurflugvallar er fyrir íbúa sem búa við skerta heilbrigðisþjónustu verði ekki tryggt áfram.

Allir oddvitarnir tíu voru sammála um að völlurinn ætti skilyrðislaust áfram að vera á sínum stað. Í öllu falli þangað til jafngóður eða betri kostur yrði fundinn sem ekkert útlit er fyrir þrátt fyrir umræður um áratugaskeið um flutning vallarins annað. Öryggishlutverk hans við hlið Landspítalans sé óumdeilt en þangað þarf landsbyggðarfólk oft að leita þjónustu sem einfaldlega er ekki er í boði annars.

Þrír frambjóðendanna; Þorsteinn Bergsson frá Sósíalistaflokknum, Jens Garðar Helgason úr Sjálfstæðisflokki og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson úr Miðflokki tóku jafnvel svo djúpt í árina að segja að taka yrði allt skipulagsvald á Reykjavíkurflugvelli af Reykjavíkurborg. Hart væri sótt að vellinum úr öllum áttum og taka þyrfti af skarið í eitt skipti fyrir öll.

Sindri Geir Óskarsson, frambjóðandi Vinstri grænna, hitti naglann á höfuðið varðandi öryggisþáttinn aðspurður um völlinn: „Algjört lykilatriði að flugvöllurinn sé á sínum stað í Vatnsmýrinni. Ekki bara fyrir okkur sem þurfum að sækja þjónustu á höfuðborgarsvæðinu því þetta er öryggismál fyrir landsbyggðina. Ég á fólk sem væri ekki á lífi ef flugvöllurinn væri ekki þarna á þessum stað.“

Framboðsfundurinn var sendur út í streymi en upptöku af fundinum í heild má sjá hér að neðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.