„Ég er fyrsta, önnur og þriðja vaktin“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. okt 2023 10:06 • Uppfært 31. okt 2023 10:40
Íslenskt samfélag er betur farið að skynja fjölbreytt fjölskyldumynstur og aðstæður þótt enn megi bæta úr. Konur berjast enn fyrir því að komið sé fram við þær eins og karlmenn í sambærilegum aðstæðum.
Þetta var meðal þess sem fram kom í ræðum á baráttufundi sem haldinn var á Egilsstöðum í tilefni kvennaverkfalls fyrir viku síðan.
Jóhanna Heiðdal, hótelstjóri á Hótel Héraði, veitt þar innsýn í líf tveggja barna einstæðrar móður þar sem hún væri „fyrsta, önnur og þriðja vaktin.“ Hún sagðist hafa náð að halda sér á góðum stað í atvinnulífinu, menntað sig og fengið framgang í starfsemi auk þess sem krökkunum hefði vegnað vel. „Ég hef ekki alltaf fengið skilning frá mínum vinnuveitendum að ég þurfi að taka alla starfsdagana,“ sagði Jóhanna.
Hún lýsti því að samfélagið hefði breyst á góðan hátt síðustu 20 ár. Meira rými sé orðið fyrir fjölbreytt fjölskyldumynstur, svo sem einstæða foreldra í vaktavinnu.
Hún kvaðst hafa séð viðtal við einstæða konu sem lýsti ánægju með líf sitt því það væri „meiri vinna að eiga mann og barn en en vera einstæð.“ Jóhanna sagði að vissu leyti hægt að taka undir þetta. „Stundum er þetta satt. Ég treysti ekki á neinn annan. Það er enginn annar á heimilinu sem ver í búðina eða sér um þvottinn.“ Hún kallaði eftir því að konur stæðu þéttar samar því þær hefðu oft ekki á annan að treysta þegar á reynir.
Ef þú getur ekki verið kurteis, þá verð ég að biðja þig um að fara
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, talaði líka um þörfina á samstöðu. Hennar áhersla var á orðaval, að konur hættu að tala sjálfar sig niður. Jónína lagði út frá orðinu kvenfyrirlitningu, sem hún sagði í raun vera hvenær sem komið sé öðruvísi fram við konur en karla í sömu aðstæðum. „Ég hringi stundum í forvera minni í pólitíkinni sem eru báðir karlar og spyr þá hvort þeir hafi lent í aðstæðunum sem ég er að lýsa.“
Hún sagði konur oft ekkert vita hvað þær ættu að gera þegar talað væri niður til þeirra. Hún sagði erfitt að standa upp í slíkum aðstæðum en það yrði að gerast. Oft væri besta að minna viðkomandi á að sýna kurteisi, eða fara ella. Hún sagði betra að tækla vandamálið á staðnum frekar en eftirá með úthrópun og smánun því tilgangurinn væri að fræða. „Það er örlítill vonarneisti að karlar séu með okkur í liði.“