Egersund Ísland áformar að færa út kvíarnar til Reyðarfjarðar
Fyrirtækið Egersund Ísland hefur tryggt sér stóra lóð við Nesbraut á Reyðarfirði en þar áformar fyrirtækið að reisa sérstakt þjónustuhús fyrir fiskeldið í fjórðungnum.
Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur þegar samþykkt lóðaúthlutunina og segir Stefán B. Ingvarsson, framkvæmdastjóri Egersund Íslands, næstu skref vera að teikna húsið og finna byggingaraðila til að taka verkið að sér. Ekki sé seinna vænna að hefja slíka uppbyggingu því vöxtur fyrirtækisins sé mikill og fyrirsjáanlegt að svo verði áfram. Fyrirtækið er eitt hið stærsta í landinu á sviði veiðarfæragerðar og viðgerða hvers kyns á trollum, nótum og pokum fyrir útveginn.
„Við erum svo sem ekki komnir í vandræði ennþá en ef fram heldur sem horfir fer að verða mjög þröngt um okkur í húsnæðinu á Eskifirði. Þar eru stækkunarmöguleikarnir mjög takmarkaðir og ekkert af öðrum iðnaðarlóðum á lausu hér á svæðinu. Þannig að svarið var að leita til Reyðarfjarðar og setja þar upp alla þjónustu við fiskeldisfyrirtækin. Þar með rýmkar aðeins um okkur hér á Eskifirði í kjölfarið.“
Stefán segir vonir standa til að hægt verði að hefja byggingu nýs húss strax á næsta ári en menn geri sér grein fyrir að ekki sé hlaupið að því að fá menn í slíkt verkefni um þessar mundir. Það ræðst af hvernig það gangi hvenær nýja starfsstöðin verði tekin í gagnið.
Hjá Egersund Ísland er boðið upp á margvíslega þjónustu við útgerðir og fiskeldisfyrirtæki og vöxturinn mikill og góður undanfarin ár. Myndin frá verkstæði þeirra á Eskifirði.