Egilsstaðarannsóknin markaði tímamót í heilsugæslu á Íslandi
Á áttunda áratugar síðustu aldar vann Guðmundur Sigurðsson læknir á Egilsstöðum, með dyggri aðstoð annarra, þrekvirki við hönnun á því sem kallað er heilsuvandaskrá, hönnum sem síðar varð forsenda þess að hægt var að taka upp tölvuskráningar í heilsugæslum. Sá skráningarmáti varð síðar forsenda vandaðra rannsókna og gæðaþróunar í heilsugæslu og markaði Egilsstaðarannsóknin svokallaða tímamót í sögu heilsugæslu á Íslandi.
Í síðustu tveimur tölublöðum Læknablaðsins er fjallað um frumkvöðlastarf Guðmundar í þessum efnum. Guðmundur kom til starfa sem læknir á Egilsstöðum árið 1971. Hann hafði í starfsnámi sínu á sjúkrahúsunum í Reykjavík kynnst því hversu óskipulagðar heilsufarsskráningar voru og erfitt og seinlegt að ná yfirsýn yfir sjúkraskrár einstaklinga. Á Egilsstöðum tók ekki betra við þar sem engin eiginleg sjúkraskrá einstaklinga var til. Sami háttur var á víðast hvar um land hjá héraðslæknum.
Við blasti að þessi skráning var alls ófullnægjandi og úrbóta var þörf. Byggja þyrfti upp spjaldskrár- og skjalavörslukerfi sem hentaði fyrir ævilanga heilsugæslu hvers einstaklings. Guðmundur einhenti sér í málið.
Hann byrjaði á að búa til bókhaldsreglur um öll samskipti við sjúklinga. Þeim skyldi safnað saman í möppu þar sem fremst var svokölluð heilsuvandaskrá, efnisyfirlit má segja, um alla langvinna og skammvinna sjúkdóma einstaklinga. Þessi skráningarmáti var til augljósra hagsmuna fyrir sjúklinga, lækna og aðra umönnunaraðila, en ekki síður nýttist skráningarkerfið, einkum eftir að rafræn skráning kom til, vel við gæðaþróun, kennslu og til rannsókna.
Upptaka tölvuskráningar má rekja til rannsóknar á tölvuskráningu samskipta á Heilsugæslustöðinni á Egilsstöðum, sem Norðurlandaráð veitti styrk fyrir. Rannsóknin, sem leidd var af Guðmundi, hlaut nafnið Egilsstaðarannsóknin. Var markmið hennar að þróa aðferðir við að skrá, telja og flokka samskipti íbúa tiltekins svæðis við heilsugæslustöð.
Rannsóknin stóð í tvö og hálft ár á árunum 1976 til 1978. Egilsstaðarannsóknin og niðurstöður hennar höfðu mikil áhrif á þróun heilsugæslunnar á fyrstu áratugum hennar, ásamt öðrum störfum Guðmundar, og markaði Heilsugæslustöðin á Egilsstöðum sér sess sem fyrirmynd þar sem unglæknar sóttust eftir störfum.
Greinarnar í Læknablaðinu má finna hér, þá fyrri, og þá síðari hér.