Egilsstaðaskóli snjallsímalaus eftir áramótin
Fyrir tilstuðlan foreldrafélags Egilsstaðaskóla, í góðri samvinnu við skólayfirvöld, verður skólinn formlega snjallsímalaus frá og með næstu áramótum.
Það um tíma verið markmið hjá skólastjórnendum í Egilsstaðaskóla að gera skólann snjallsímalausan en síðustu árin hefur nemendum allra elstu bekkjanna leyfst að hafa snjallsíma sína með í skólann og brúka á tilteknum stundum. Sökum nokkurs kostnaðar við það markmið setti skólinn sér upphaflega áætlun um að banna snjallsíma alfarið frá og með haustinu 2024 enda engir fjármunir til þessa á yfirstandandi skólaári. En þá kom til kasta foreldrafélagsins sem hefur tekist, með samvinnu við alla og þar ekki síst nemendurna sjálfa, að færa dagsetninguna fram um hálft ár. Þannig mun skólinn verða snjallsímalaus strax í byrjun næstu skólaannar eftir áramótin.
Að sögn Sæunnar Vigdísar Sigvaldadóttur, formanns foreldrafélagsins, var það álit margra foreldra að of langt væri að bíða fram á næsta haust til að setja skólabann á snjallsíma enda löngu orðið ljóst að mikil notkun þeirra meðal barna og unglinga hefur neikvæð og oft mjög slæm áhrif.
„Þannig að við tókum okkur til og erum að setja á laggirnar nokkuð sem við kölluð þjóðfund þar sem við ætlum öll sem málinu tengjast að setjast saman niður fljótlega og ná niðurstöðu og sátt um hvernig við gerum þetta svo öllum líki. Skólinn hefur sýnt þessu mikinn skilning og tekur að fullu þátt en það er að ýmsu að hyggja þegar slíkt bann er sett og það þarf auðvitað fagfólk að aðstoða okkur sem hefur af þessu reynslu. Þessu höfum við áorkað með tiltölulega litlum kostnaði sem við þurfum að safna fyrir og erum byrjuð á því. En sá kostnaður er lítill í samanburði við þann ávinning sem af slíku getur orðið og foreldrar almennt tekið afskaplega vel í verkefnið.“