Egilsstaðir, Fellabær og Seyðisfjörður bætast við heimsendingarþjónustu Krónunnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. jún 2025 15:59 • Uppfært 11. jún 2025 15:59
Krónan býður nú upp á heimsendingar úr verslun sinni á Reyðarfirði til viðskiptavina á Egilsstöðum, Fellabæ og Seyðisfirði. Þjónustan hefur til þessa verið aðgengileg í þéttbýliskjörnum Fjarðabyggðar.
Samkvæmt tilkynningu Krónunnar verður keyrt fimm sinnum í viku á Hérað og einu sinni í viku til Seyðisfjarðar með pantanir sem teknar eru saman í versluninni á Reyðarfirði. Áður hefur slík þjónusta verið í boði á Eskifirði, Norðfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík.
Haft er eftir Maríu Guðrúnu Jósepsdóttur, verslunarstjóra Krónunnar á Reyðarfirði, að hún fagni því að fleiri geti nýtt sér þjónustu sem vel hafi verið tekið. Íbúar á þessum stöðum versli þegar talsvert á Reyðarfirði.
„Við erum eina lágvöruverðsverslunin á Austfjörðum sem býður upp á þessa þjónustu og hefur verið hreint ótrúlegt að fylgjast með viðtökunum á heimsendingunni hér fyrir austan. Við sem búum hér vitum vel að það getur tekið ansi langan tíma að sinna matarinnkaupunum með tilheyrandi fyrirhöfn, sérstaklega á veturna, og er fólkið hér því afar ánægt með þessa nýju þjónustu,“ segir María.
„Með þessari þjónustuaukningu svörum við kalli bæjarbúa á Egilsstöðum, Seyðisfirði og í Fellabæ á vissan hátt með því að gera íbúum, auk fyrirtækja á svæðinu sem vilja koma í reikningsviðskipti hjá okkur, kleift að panta og fá sent upp að dyrum og á sama tíma spara dýrmætan tíma og sleppa við óþarfa akstur. Í bæjarfélögunum þremur búa samtals um 3.700 manns og hlökkum við til að kynnast þeim enn betur í gegnum snjallverslunina okkar.“
Heimsending kostar alla jafna 1.490 krónur en er frí þegar pantað er fyrir 19.900 krónur eða meira.
María Guðrún Jósepsdóttir, verslunarstjóri Krónunnar á Reyðarfirði. Mynd: Krónan/Gunnhildur Lind