Skip to main content

Einar Freyr gefur kost á sér í fimmta sætið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. feb 2022 09:36Uppfært 11. feb 2022 09:43

Einar Freyr Guðmundsson, formaður ungmennaráðs Múlaþings og menntaskólanemi, gefur kost á sér í fimmta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor. Frestur til að gefa kost á sér í prófkjöri, sem haldið verður 12. mars, rann út í gær.


Einar er fæddur 27. mars árið 2003. Hann stundar nám á náttúrufræðibraut Menntaskólans á Egilsstöðum þar sem hann hefur verið í ræðuliði skólans.

Hann tók fyrst sæti í ungmennaráði Fljótsdalshéraðs 2017 og varð formaður þess 2019. Einar var tíundi á lista flokksins í Norðausturkjördæmi í síðustu þingkosningum.

„Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem best er til þess fallinn að leiða Múlaþing inn í farsæla framtíð. Til að geta það þarf flokkurinn að fá góða kosningu og til þess þarf framboðslistinn að vera sterkur og endurspegla kjósendahópinn sem best.

Málið snýst ekki síður um aldur en kyn og Sjálfstæðisflokkurinn á góða möguleika á því að ná betur til ungra kjósenda, en samkvæmt könnun sem ungmennaráð Fljótsdalshéraðs framkvæmdi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar í Múlaþingi átti Sjálfstæðisflokkurinn yfir 49% fylgi að fagna meðal nemenda í ME.

Það er gömul saga og ný að líkur sækir líkan heim og ungt fólk er líklegra til að kjósa flokk sem teflir fram fólki á þeirra reiki. Ég tel mig geta lagt mitt af mörkum til að nýta þessi sóknarfæri og bið um ykkar stuðning til þess,“ segir í tilkynningu Einars.