Einar Rafn hættir hjá HSA
Einar Rafn Haraldsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, lætur af störfum um mánaðarmótin. Hann segir það henta bæði fyrir hann og stofnunina að hætta núna.
Velferðarráðherra skipar forstjórann til fimm ára í senn. Tæpt ár er eftir af skipunartíma Einars Rafns sem hefur verið frá vegna veikinda meira og minna síðan í sumar.
„Mér finnst betra að hætta núna frekar en fara að djöflast í málum í níu mánuði og hætta svo,“ sagði Einar Rafn í samtali við Austurfrétt í dag. „Ég óskaði eftir þessu sjálfu og ráðherrann féllst á þetta. Þetta hentar best bæði fyrir mig og stofnunina.“
Hann segist annars hafa náð sér að mestu af þeim veikindum sem hafa hrjáð hann síðustu mánuði. „Ég er flottur eins og þú heyrir.“
Einar Rafn hefur verið forstjóri stofnunarinnar síðan henni var komið á fót þegar sjö heilbrigðisstofnanir voru sameinaðar á Austurlandi árið 1999. Embættið verður auglýst á næstu dögum.
Þórhallur Harðarson, fulltrúi forstjóra, hefur verið settur til að gegna starfinu þar til ráðherra hefur gengið frá skipun í það.