Einhver allra besta loðnuvertíð hjá Síldarvinnslunni
Loðnuvertíðin hefur ekki gengið betur hjá Síldarvinnslunni (SVN) í mörg herrans ár en á þeirri vertíð sem nú er nýlokið og gott veður þar stór orsakavaldur. Líklegt er talið að tekjurnar verði yfir 40 milljörðum króna.
Frá þessu er greint á fréttavef SVN en sem kunnugt er þótti fyrsti loðnukvótinn ekki gefa sérstakt tilefni til bjartsýni enda mun minni en á síðasta ári eða alls um 220 þúsund tonn. Hafrannsóknarstofnun bætti svo 57 þúsund tonna kvóta við eftir frekari rannsóknir.
Alls náðu skip SVN: Beitir, Börkur, Barði og Bjarni Ólafsson að veiða rúm 60 þúsund tonn auk þess sem önnur skip lönduðu töluvert af loðnu við stöðvar SVN. Hráefnið var allt með besta móti og gekk framleiðsla í fiskiðjuveri SVN svo vel að aldrei áður hefur verið meira þar unnið af loðnu- og loðnuhrognum til manneldis. Þá fór og stór hluti aflans í mjöl- og lýsisframleiðslu.
Þessar fréttir speglast á við vertíðina hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði en þar gekk hún einnig afar vel.