Einkaaðilar óskað eftir úttekt á vatnsbólum eftir mengunarfréttir
Nokkrir einstaklingar og einkaaðilar hafa óskað eftir því undanfarið að Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) framkvæmi úttekt á vatnsbólum sínum þó engin bein skylda sé til slíks. Ástæðan eru töluverðar fréttir af mengun í stærri vatnsbólum víða austanlands allt þetta ár.
Fyrr í dag tilkynnti HEF-veitur um óhreinindi í vatnsbóli Hallormsstaðar og fyrr í vikunni kom í ljós mengun í vatnsbóli Borgfirðinga og það í þriðja skiptið á tæpu ári. Íbúar á Seyðisfirði og í Breiðdal og Stöðvarfirði hafa einnig þurft að sjóða neysluvatn sitt um tíma á árinu vegna mengunar.
Lára Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri HAUST, staðfesti við Austurfrétt fyrr í sumar að óvenjulega mikið væri um mengun í drykkjarvatni miðað við meðalár. Taldi hún ljóst að skýringin væri í flestum tilvikum að yfirborðsvatn hefði komist í brunna.
Samkvæmt reglugerðum um neysluvatn er ekkert sérstakt eftirlit haft með vatnsveitum sem þjóna færri en 50 manns eða 20 heimilum eða sumarhúsum á sama svæði þó undantekning sé ef ferðaþjónusta eða matvælastarfsemi fer fram á viðkomandi svæði.
Það má þó ganga út frá því sem vísu að ef stærri vatnsból geta mengast getur það einnig átt sér stað í vatnsbólum bæja til sveita þar sem margir hverjir notast við sín eigin heimatilbúnu vatnsból.
Lára segir að þrátt fyrir að skylda sé ekki fyrir hendi láti margir einkaaðilar taka sýni úr eigin vatnsbólum til öryggis.
„Það er nú samt oft þannig að einkaaðilar hafa samband við okkur og vilja láta gera úttekt á vatnsbólum sínum. Ég var til að mynda í tveimur svoleiðis heimsóknum í fyrradag, sem er reyndar óvenjumikið, en skýrist af þessum fréttum af menguðu neysluvatni.“
Vatnsmengun getur verið af ýmsum toga en í langflestum tilvikum er fólki ráðlagt að sjóða allt neysluvatn á meðan mengun varir. Mynd Fjarðabyggð