Skip to main content

Einn mesti vindhraði sem mælst hefur

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. feb 2022 10:23Uppfært 22. feb 2022 12:50

Vindhviða upp á 76 m/s mældist á Vatnsskarði eystra um klukkan tvö í nótt. Það virðist ein snarpasta hviða sem mælst hefur hér á landi.


Samkvæmt grein á vef Veðurstofu Íslands er snarpasta vindhviða sem mælst hefur hér á landi 74,5 m/s þann 16. janúar 1995 á Gagnheiði. Þar kemur einnig fram að í Skálafelli hafi mælst 76,5 m/s þann 17. febrúar 2003. Mesti meðalhraði er 63,5 m/s í Skálafelli í janúar 2003.

Í færslu Elínar Bjarkar Jónasdóttir, veðurfræðings á Twitter, er greint frá því að á Ásgarðsfjalli í Kerlingarfjöllum hafi mælst hviða upp á 76,6 m/s þann 7. febrúar síðastliðinn og þar með hafi verið sett nýtt vindhviðumet.

Vindmælir á Vatnsskarði eystra sló upp í 76 m/s um klukkan tvö í nótt og meðalvindhraðinn 57 m/s. Ljóst er að þar hefur verið snælduvitlaust veður, meðalvindhraðinn er lítið minni frá 11-2 og hviður um eða yfir 70 m/s fram undir klukkan þrjú.

Þær upplýsingar fengust hjá Veðurstofunni í morgun að ekkert bendi til annars en mælingin sé vel marktæk. Vegagerðin mælir hins vegar með öðrum hætti en Veðurstofan. Vegamælarnir eru í sex metra hæð enda gerðir til að reikna út áhrif vinds á rútur og háa bíla. Þá þurfa hviðurnar aðeins að standa í mínútu meðan alþjóðaveðurstaðlar krefjast mælinga í 10 metra hæð og að vindurinn standi í þrjár mínútur. Mesta hviða á mæli Vegagerðarinnar er frá Lómagnúpi þann 1. apríl árið 2005, 76,7 m/s.

Þrátt fyrir mikinn vind upp á Vatnsskarði virðast Borgfirðingar hafa sloppið þokkalega nema fok varð á þakplötum á útihúsum í Njarðvík.

Í Vatnsskarði. Mynd úr safni.