Einstaklega lág staða miðlunarlóna þýðir skerðingar til stórnotenda á Austurlandi
Landsvirkjun hefur boðað að geta ekki selt skerðanlega raforku til stórnotenda á Norður-og Austurlandi frá 24. nóvember og fram í miðjan maí. Ástæðan er einstaklega þurrt árferði sem þýðir að miðlunarlón eru langt undir því þau ættu að vera.Samkvæmt samningum á Landsvirkjun að tilkynna um skerðingar með mánaðarfyrirvara. Tilkynnt var um þær á Suður- og Vesturlandi í lok september en í síðustu viku var tilkynnt um skerðingar á Norður- og Austurlandi frá 24. nóvember til 15. maí.
„Í lokuðu raforkukerfi eins og hér á Íslandi koma alltaf ár þar sem skerða þarf rafmagn því innrennsli í miðlunarlón er minna en í meðalári. Ef við ætluðum bara að selja það sem væri alveg öruggt að við gætum framleitt þá seldum við minna. Þess vegna er þessi heimild í samningunum, að geta sker orkuna þegar rennslið er minna,“ segir Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptastýringar hjá Landsvirkjun.
Meðal þeirra sem sæta skerðingum á Austurlandi eru álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði, fiskimjölsverksmiðjur og fjarvarmaveitur. Þessir aðilar eru með samninga um það sem kallast „ótrygg“ eða „skerðanleg“ raforka.
Þórisvatn ekki fyllst fimm ár í röð
Aðalástæður skerðinganna er slæm staða í miðlunarlónum, fyrst og fremst Þórisvatni á Suðurlandi. „Staðan í Hálslóni er ekki alslæm en hún er ekki góð. Það byrjaði tiltölulega snemma að lækka í lóninu.
Staðan í Þórisvatni er einstaklega slæm. Lónið fyllist ekki á síðasta vatnsári (frá 1. október – 30. september), en hefur í gegnum tíðina fyllst um það bil annað til þriðja hvert ár. Nú er staðan orðin sú að það hefur ekki fyllst fimm ár í röð. Við þetta bætist að síðasta ár var lélegt á öllum vatnssvæðum.“
Til að reyna að bregðast við stöðunni er eins mikið rafmagn flutt frá Norður- og Austurlandi til Suðurlands. Hindranir í flutningskerfinu þýða að ekki er hægt að flytja jafn mikið og æskilegt væri til að létta álagi af Þórisvatni. Enn í dag er flutt eins mikil orka frá Austurlandi til suðurs og flutningskerfið ber.
Beðið eftir vorinu
Landsvirkjun hóf nýverið framkvæmdir við fyrsta vindorkuver landsins, Búrfellslund sem á að komast í gagnið árið 2026. Eins eru öll leyfi í höfn fyrir Hvammsvirkjun sem á að komast í rekstur árið 2029. Fyrirhugað er að stækka bæði Sigöldustöð og Þeistarreyki. Þær framkvæmdir munu auka afköst orkukerfisins, þótt staðan nú sé fyrst og fremst tilkomin vegna lélegs árferðis.
Í viðtölum og greinum hefur Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagt að ekki sé orkuskortur í landinu, það er öll forgangsorka sé afhent. Hins vegar sé skortur á orku sem haldi aftur af ákveðnum hlutum.
Síðasta vetur var ótrygg orka skert á Austurlandi frá byrjun febrúar og fram í apríl, en skerðingum var aflétt eftir mikla snjókomu um páskana. Valur segir mögulegt að skerðingarnar nú standi ekki eins lengi og boðað hefur verið en það velti á veðurfari.
„Veðrið getur breyst í nóvember, þótt það sé ólíklegt að það breyti stöðunni verulega. Það getur líka vorað fyrr en um miðjan maí. Með því eigum við að meira fari að renna inn í lokin en úr þeim og vatnsyfirborðið hækki.“