Skip to main content

Einungis 0,8% úr Framkvæmdasjóð aldraðra austur á land

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. jún 2023 10:55Uppfært 22. jún 2023 11:52

Að frátöldum Vestfjörðum, sem fá ekki neitt, er enginn landshluti að fá lægra framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra þetta árið en Austurland. Þeim sjóð er ætlað að stuðla að uppbyggingu og eflingu öldrunarþjónustu um land allt.

Í vikunni úthlutaði Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, tæplega 1,1 milljarði króna úr Framkvæmdasjóðnum að gefnum tillögum frá stjórn hans sem leggur mat á allar umsóknir hverju sinni og setur fyrir ráðherrann. Ekkert kom í hlut Austurlands við úthlutun á síðasta ári.

Upphæðin sem úr sjóðnum fer hingað austur þetta árið nemur rúmlega 8,6 milljónum króna eða vel innan við eitt prósent af heildarupphæðinni sem veitt er. Það fer allt til „breytinga á fjölbýli í einbýli, viðhalds og endurbóta á hreinlætisaðstöðu og sameiginlegu rými“ á hjúkrunarheimilinu Sundabúð í Vopnafirði.

Reyndar mætti ætla við fyrstu sýn á úthlutunarlista ársins, sem sjá má hér, að Austurland sé að fá rétt tæpar 20 milljónir króna alls. En þar hefur einhverjum starfsmanni ráðuneytisins orðið á í messunni og flokkað hjúkrunarheimilið Hvamm á Húsavík til Austurlands.

Næsti eftirbátur við Austurland er Norðurland en þangað eru aðeins veittar tæplega ellefu milljónir króna samkvæmt töflu ráðuneytisins. Þar gleymist aftur hjúkrunarheimilið Hvammur á Húsavík, sem ætti undir eðlilegum kringumstæðum að teljast til Norðurlands, þannig að heildarupphæðin þangað er um 20 milljónir alls.

Aðrir landshlutar fá töluvert meira í sinn hlut. Vesturland fær úthlutað tæpum 65 milljónum króna, rúmar 147 milljónir fara til Suðurlands, 112 milljónir tæpar til Suðurnesja og til verkefna á höfuðborgarsvæðinu fara alls 654 milljónir í heildina.