Skip to main content

Einungis þrjú prósent styrkveitinga úr Matvælasjóði farið austur á land

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. feb 2024 16:23Uppfært 06. feb 2024 16:24

Frá því að Matvælasjóður var formlega settur á laggirnar árið 2020 hefur aðeins rétt rúmlega þrjú prósent styrkveitinga sjóðsins til þróunar og nýsköpunar í framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- eða sjávarafurðum farið til aðila á Austurlandi.

Matvælasjóður tók formlega við af því sem áður var þekkt sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins árið 2020 og hefur árlega frá 2021 veitt sérstaka styrki í fjórum mismunandi flokkum til að styðja á heilstæðan hátt við þróun matvælaframleiðslu í landinu. Um þessar mundir er tekið við umsóknum um styrki á yfirstandandi ári af hálfu sjóðsins en úttekt Austurfréttar leiðir í ljós að frá upphafi hefur aðeins rúmlega þrjú prósent styrkveitinga farið til einstaklinga eða fyrirtækja sem sannarlega vinna að sínu í fjórðungnum.

Ef frá eru taldar styrkveitingar úr sjóðnum til samtaka eða stofnanna á borð við Matís eða slíkra sem reka starfsstöðvar víða í landinu hefur Austurland fengið hvað minnst allra. Samkvæmt útreikningum Austurfréttar þessi þrjú ár, 2021 - 2023, hafa verkefni á Austurlandi hlotið rétt rúmlega 53,4 milljónir króna í styrki en þar miðað við verðgildi hvers árs fyrir sig.

Stærsti staki styrkurinn þennan tíma, 22 milljónir króna, fóru til Responsible Foods ehf. sem framleiðir snakk og nasl undir nafninu Næra en önnur austfirsk fyrirtæki sem hafa fengið þar fjármagn eru Fljótsdalskönglar í Fljótsdal, Síldarvinnslan í Neskaupstað og Nordic Wasabi í Fellabæ. Heildarúthlutun sjóðsins þennan sama tíma var alls rúmlega 1,7 milljarður króna svo prósentuhlutur Austurlands er rétt um 3 prósent af heildinni.

Úthlutun til austfirska aðila hefur árlega rokkað á milli 5% og 7% af heildarúthlutun Matvælasjóðs. Samantekið öll árin lækkar prósentutalan niður í rúm 3%. Skjáskot