Eitt einasta atkvæði skipti sköpum í Nesskóla
Eitt atkvæði skipti sköpum þegar niðurstöður könnunar Nesskóla meðal foreldra og forráðamanna um breytingar á upphafi skóladags frá og með næsta hausti voru kunngjörðar. Breytingarhugmyndin var felld.
Málið snérist um könnun sem starfsfólk skólans í Neskaupstað gerði á því hvort foreldrar og forráðamenn skólabarna hefðu áhuga á að seinka byrjun skóladagsins um 20 mínútur næsta haust eða halda sömu tímum og verið hefur.
Meginhugmyndin sú að gefa börnunum færi á að sofa eilítið lengur út en hingað til. Var hugmyndin vel kynnt fyrirfram með bæði bréfi til foreldra og sérstökum foreldrafundi auk þess sem hún var kynnt á Skólaþingi Nesskóla í aprílmánuði þar sem undirtektir reyndist góðar.
Skólastjórnendur höfðu hug á að prófa sig áfram með breytingar á stundaskrá nemenda skólans frá og með næsta hausti sem fólst fyrst og fremst í að upphafi skóladagsins yrði seinkað um 20 mínútur. Þannig hæfist stundaskrá klukkan 8.30 í stað 8.10 eins og verið hefur undanfarin ár en án þess þó að breyta skólaopnun að neinu leyti. Þvert á móti var hugmyndin að taka mót þeim nemendum sem vildu áfram mæta rétt fyrir klukkan 8 á morgnana en bjóða þá upp á morgunmat áður en formleg kennsla hæfist. Slík seinkun skóladagsins hafði hlotið góðar undirtektir skólastarfsfólks, nemenda og foreldra á sérstöku skólaþingi Nesskóla í aprílmánuði.
Þátttaka í könnun skólans vegna þessa var góð en eitt atkvæði skipti sköpum. Fjöldi þeirra sem vildu engar breytingar reyndist hundrað meðan 99 leist vel á breytinguna. Fimmtán til viðbótar höfðu enga skoðun til eða frá.
Lokaákvörðun um hvort einhverjar breytingar verði að veruleika eru á hendi fjölskyldunefndar Fjarðabyggðar.