Tvenn gullverðlaun austur af Unglingameistaramóti Íslands á skíðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. apr 2025 08:40 • Uppfært 10. apr 2025 09:45
Drjúgur hópur Austfirðinga undir merkjum UÍA tók þátt í Unglingameistaramóti Íslands á skíðum sem haldið var á Akureyri um síðustu helgi. Nokkrir einstaklingar úr hópnum náðu á verðlaunapall.
Heiðmar Óli Pálmason vann til gullverðlaunanna í stórsvigi í flokki 14-15 ára pilta. Heiðmar Óli varð einnig sjötti í svigi og þar kom Jóhann Smári Kjartansson næstur á eftir honum.
Hrafnhildur Hlín Jónsdóttir og Ásdís Erla Björgvinsdóttir skiptust á sætum eftir greinum í flokki 12-13 ára. Hrafnhildur varð þriðja og Ásdís Erla fjórða í stórsvigi en höfðu sætaskipti í svigi. Niðurstaðan varð síðan sú að Ásdís varð önnur í alpatvíkeppni, samanlögðu svigi og stórsvigi en Hrafnhildur fjórða.
Rakel Lilja Sigurðardóttir náði í gullverðlaun í samhliðasvigi í flokki 14-15 ára. Hún varð einnig sjötta í svigi 14-15 ára.
Mynd úr safni.
Í fyrstu útgáfu fréttarinnar vantaði upplýsingar um gullverðlaun Rakelar Lilju. Beðist er velvirðingar á mistökunum.