Ekkert Condor flug á næsta ári
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. ágú 2023 13:39 • Uppfært 30. ágú 2023 13:39
Þýska flugfélagið Condor, sem hugðist fljúga milli Egilsstaða og Frankfurt í ár, hefur staðfest að ekki verið gerð önnur tilraun að ári.
Túristi greinir frá. Í júlí í fyrra tilkynnti félagið að það ætlaði að fljúga tvisvar í viku frá Frankfurt til annars vegar Egilsstaða, hins vegar Akureyrar frá maí fram í október. Töluverð vinna var lögð í markaðssetningu flugsins.
Í lok mars tilkynnti félagið að ekkert yrði af fluginu. Var því borið við að fyrirvarinn hefði verið of skammur, meðal annars í samkeppni um gistipláss sem nær allt væri orðið uppbókað áður en flugið var tilkynnt.
Þá var því enn haldið opnu að Condor myndi gera aðra tilraun sumarið 2024. Það hefur nú verið slegið af. „Okkur er skylt að staðfesta að Ísland verður því miður ekki hluti af væntanlegri sumaráætlun Condor,“ segir í svari talskonu Condor við fyrirspurn Túrista.