Ekkert eitt sem útskýrir eða leysir niðursveiflu í ferðaþjónustu
Léleg sala hjá ferðaskrifstofum hefur valdið miklum samdrætti í sumar hjá Hótel Breiðdalsvík. Eigandi hótelsins segir ekkert eitt útskýra eða leysa þann samdrátt sem orðið hefur í ferðaþjónustu á Austurlandi í sumar. Til framtíðar verði stöðugt að sinna markaðssetningu og bæta vetrarsamgöngur.Eins og Austurfrétt greindi frá í víðustu viku fækkaði gistinóttum á hótelum á Austurlandi í maí um 24%. Það mun þó vera misjafnt milli staða og svo virðist sem gististaðir sem treysti frekar á ferðaskrifstofur virðist fara verr út úr samdrættinum. Þannig er staðan á Hótel Breiðdalsvík.
„Ferðaskrifstofurnar eiga alltaf frátekin herbergi fyrir væntanlega viðskiptavini. Þær selja mest frá jólum og fram að páskum. Á þeim tíma vorum við með fullbókað hótel. Síðan ná þær ekki að selja og eftir páska bárust okkur það miklar afbókanir að við stöndum uppi með minna bókað hótel. Þetta virðist staðan hjá flestum á landinu sem eru með mikið af hópum,“ segir Friðrik Árnason, eigandi Hótels Breiðdalsvíkur.
Sjaldgæft að herbergi séu laus um hásumar
Hann segir sumarið þar hafa farið illa af stað og hægt rætist úr. „Tekjusamdráttur okkar í júní var um 40-50%. Þótt það sé mikið að gera akkúrat núna þá er útlit fyrir slakasta júlí síðan ég tók við árið 2009.
Lausatraffíkin hjálpar aðeins, það bókast í herbergi með litlum fyrirvara þannig við fáum bæði daga sem eru fullbókaðir en líka lítið bókaða. Í gegnum tíðina hafa ekki verið laus herbergi í júlí og ágúst.
Tilfinningin fyrir haustið er ekki góð. Ferðaskrifstofurnar eiga enn frátekin herbergi í september og október. Þær reyna að halda þeim sem lengst því þær eru að reyna að selja,“ segir Friðrik.
Staðan verri fjær Reykjavík
Hann nefnir ýmsa þætti sem útskýrt geti samdráttinn í ferðunum til Íslands. Evrópumót í fótbolta og væntanlegir Ólympíuleikar í París dragi úr ferðum Evrópubúa. Úkraínustríðið hjálpar ekki en síðan eru þættir á borð við verðbólgu, eldgosið í Grindavík og fyrri velgengni.
„Það gekk gríðarlega vel í fyrra og ferðaskrifstofurnar hefðu getað selt 30% fleiri Íslandsferðir en þær gerðu. Við það urðu þær gráðugri og tóku frá enn fleiri herbergi. Í fyrra voru ferðaskrifstofur sem selja pakkaferðir með bílaleigubílum hættar að selja í febrúar/mars því landið var orðið uppselt. Núna eru þær enn að reyna fyrir sér.
Við vitum líka að það er dýrt að koma til Íslands sem aftur veldur því að fólk annað hvort dvelur hér skemur eða snýr við á Jökulsárlóni. Staðan virðist verri eftir því sem fjær dregur Reykjavík.
Í nóvember og desember voru fréttirnar erlendis eins og Ísland væri að springa í tætlur. Eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 framkallaði ferðamannasprengju en þá var það í jökli í fjarska. Núna er heilt bæjarfélag undir, það er lýst neyðarásandi og fólk erlendis sér myndir af sprungnum húsum. Fólk gerir sér ekki grein fyrir að eldgosið er staðbundið og það hefur áhrif á eftirspurnina.
Ég held að fólk hætti ekki við að koma til Íslands heldur frestar ferðinni. Lokun Bláa lónsins hefur áhrif, því hefur verið fleygt að það sé mikilvægara Íslandi heldur en Disneyland Flórída. Eitthvað af fólki hættir við að koma því það er lokað.“
Friðrik bendir líka á að það þurfi að efla markaðssetningu landsins. „Hún má ekki vera í átaksformi á tveggja ára fresti, heldur þarf að vera ákveðið fjármagn til hennar stöðugt. Við sjáum að áfangastaðir í kringum okkur á borð við Noreg og Finnland eru að bæta í.
Við erum stundum spurð af hverju ríkið eigi að sinna markaðssetningu fyrir einkaaðila. Þessir aðilar gera það en það þýðir ekkert fyrir litla einingu eins og Hótel Breiðdalsvík að sannfæra ferðamenn um að koma til Íslands. Hins vegar getur það markaðssett sig gagnvart ferðamanninum þegar hann hefur ákveðið að koma til Íslands.“
Verður að bæta vetrarþjónustu á vegum
Samgöngumál eru annað atriði sem þarf að bæta til framtíðar, einkum í vetrarferðamennsku. „Við finnum að fólk kemur ekki út á land á veturna því það óttast að komast ekki aftur heim. Við heyrum líka af kaupstefnum að ferðaþjónustuaðilar bæði erlendis og í Reykjavík treysta sér ekki til að selja hringferðir því þeir eru búin að ákveða að ekki sé hægt að stóla á að hægt sé að keyra hringinn. Við getum ekki búið við þá klakavegi sem hér eru og það er galið að ekki sé rutt að Dettifossi.
Það þarf líka að skoða innanlandsflugið. Við rekum ferðaskrifstofu undir merkjum TravelEast og hátt verð á innanlandsflugi hefur veruleg áhrif á hana. Síðan þyrftum við að koma á millilandaflugi.“
Þegar allt er talið hefur Friðrik starfað að ferðaþjónustu í um 30 ár. Hann er bjartsýnn á að hún nái sér eftir erfitt sumar. „Við getum ekki vænst stanslauss vaxtar. En við erum ekki alltaf með rétta mælikvarða. Við erum endalaust að tala um fjölda ferðamanna í stað þess að horfa á afkomuna. Við spyrjum ekki hvað það komi margir fiskar upp úr sjónum heldur verðmætin sem þeir skapa.“
Friðrik hefur þó þegar ákveðið að loka Hótel Breiðdalsvík um tíma í vetur. „Við verðum ekki með daglega opnun frá nóvember fram í apríl sérstaklega þar sem ferðamenn frá Asíu hafa ekki skilað sér eftir Covid faraldurinn. Þetta verður okkar lengsta lokun. Það verður þó opið fyrir staka viðburði. Við gerum þetta til að verja reksturinn en við teljum að þetta ástand sé tímabundið.“