Skip to main content

Ekkert í hendi með millilandaflug til og frá Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. feb 2024 10:09Uppfært 13. feb 2024 10:11

Þrátt fyrir að þýska flugfélagið Condor hafi snemma á síðasta ári hætt við reglulegt áætlunarflug milli Frankfurt og Egilsstaða hefur áfram verið unnið að því að freista erlendra flugfélaga til að taka upp þann þráð. Ekkert slíkt er þó í hendi á þessari stundu.

Það staðfestir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, sem er í forsvari þessa verkefnis af hálfu Austurlands en Austurbrú þar í mikilli samvinnu við Markaðsstofu Norðurlands og Isavia. Stórar flug- og ferðasýningar erlendis er helsti vettvangurinn til að kynna Austurland fyrir hugsanlegum áhugasömum aðilum.

Ástæður þess að Condor hætti við voru af ýmsum toga en ein þeirra sú staðreynd að gistipláss var og er af mjög skornum skammti á Austurlandi yfir sumarmánuðina. Gætu farþegar þeirra ekki fengið gistingu væri ein meginstoð reglulegs áætlunarflugs fallin um sjálft sig.

Aðspurð út í þetta ákveðna atriði varðandi nauðsyn fjölbreyttra gistimöguleika, en gistirýmum á Austurlandi fækkaði lítið eitt í fyrra miðað við árið á undan, segir Dagmar vinnuna nú ganga fyrst og fremst út á að efla vetrarferðamennsku austanlands en þá er gistiskortur meðal annars ekki vandamál. Með því að byggja upp og gera austfirskum ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að starfa allan ársins hring eflist þau fyrirtæki og kjölfarið aukist líkurnar á fjárfestingum í þeim geira í fjórðungnum.

Vél þýska flugfélagsins Condor sem hætti við áætlunarflug með skömmum fyrirvara í mars á síðasta ári. Í ágúst var svo tilkynnt að ekki yrði heldur af neinu flugi sumarið 2024. Aðsend mynd