Ekkert Nettó í Neskaupstað

Samkaup telja ekki forsendur til að breyta verslun sinni í Neskaupstað úr Kjörbúð í Nettó. Leitað sé leiða til að styrkja Kjörbúðina og lækka vöruverð í henni. Íbúar í Neskaupstað telja fyrirtækið eiga inni tækifæri í aukinni verslun ef vöruverðið væri lægra.

Þetta var meðal þess sem fram kom á íbúafundi í Egilsbúð í gærkvöldi þar sem stjórnendur Samkaupa ræddu við Norðfirðinga. Kveikjan að fundinum var listi með um 400 undirskriftum fyrir áramót þar sem kallað var eftir samtali um framtíðar fyrirkomulag dagvöruverslunar í bænum.

„Við viljum ódýrari búð, sem í tilfelli Samkaupa er Nettó. Það er líka óánægja með þróunina. Stór hluti verslunarinnar fer fram annars staðar. Fólk fer í Krónuna á Reyðarfirði eða Bónus á Egilsstöðum. Við viljum vekja athygli Samkaupa á þessu, að við teljum hægt að versla meira í heimabyggð ef vöruverð væri með öðrum hætti. Eins er talað um að vöruúrval sé ekki nægt.

Þetta er okkar byggðamál. Ef við eigum ekki búð sem þjónar okkur þá er það ekki æskilegt upp á íbúaþróun,“ sagði Guðröður Hákonarson, í inngangsorðum sínum gær, en hann átti frumkvæði að undirskriftalistanum. Hann sagðist hafa skilning á að erfitt væri að reka búð í 1600 manna byggðarlagi en minnti líka á að áður fyrr hefðu verið nokkrar dagvöruverslanir á Norðfirði.

Neskaupstaður of lítill fyrir Nettó


Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, sagði að Nettóbúðirnar þyrftu að minnsta kosti 2000 íbúa að baki sér, velta ferðafólks yrði að vera 20% og húsnæðið 800 fermetrar. Húsnæðið í Neskaupstað væri of lítið og ekki áformað að stækka það auk þess sem viðskipti aðkomufólks væru 1,8% veltunnar. Þess vegna væri ekki áformað að breyta um búð á Norðfirði.

„Við höfum velt þessum steini oft og mörgum sinnum við. Þetta eru kannski ekki fréttirnar sem þið vilduð heyra en þetta er staðan. Verðumræðan á Íslandi er erfið en hún er hin sama, hvort sem það er innan eða utan höfuðborgarsvæðisins,“ sagði Gunnur.

Hver búð standi undir sér


Samkaup tóku yfir verslunina í Neskaupstað árið 2009 í kjölfar nauðasamninga Kaupfélags Héraðsbúa, sem rak hana áður. Henni var breytt úr Samkaupum úrvali árið 2016 og við það lækkaði vöruverð um 20%. Gunnur útskýrði að í Kjörbúðunum væru ákveðnar lykilvörur á sama verði og í Nettó, á Norðfirði væri þar um að ræða 1500 vörur af 5300. Þar væri að miklu leyti um að ræða vörur frá Änglamark, Coop og Xtra en einnig ákveðnar nauðsynjar. Þetta þýði að tap sé af ákveðnum vörum en á móti sé hærri álagning á öðrum.

Gunnur sagði það stefnu Samkaupa að reka verslanir víða um landið meðan stærstu aðilarnir á dagvörumarkaðinum, Festi sem rekur Krónuna og Hagar sem eiga Bónus, einblíni á stærstu staðina. Markmiðið sé engu að síður að hver verslun standi undir sér. Almennt verði hagnaðurinn til á höfuðborgarsvæðinu og nýtist til að reka minni verslanir á landsbyggðinni. Tilkoma Nettóverslunar á einum stað gæti þýtt að Kjörbúðum í nágrenninu yrði lokað en Samkaup reka slíkar verslanir á Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Átta milljóna hagnaður varð af rekstri Kjörbúðarinnar í Neskaupstað í fyrra.

Horfa á persónuleg eða staðbundin tilboð


Fundargestir sem tóku til máls lýstu líkt og Guðröður furðu sinni á að Samkaup sæju ekki hag í að lækka vöruverð í Neskaupstað til að ná sín auknum viðskiptum, einkum í ljósi þess að Krónan ætli að hefja heimsendingaþjónustu frá Reyðarfirði í næsta mánuði. Í svörum sínum kom Gunnur meðal annars inn á app Samkaupa og sagði persónuleg eða staðbundin vildarkjör skref inn í framtíðina. Hún kveðst vonast til að ef almennt tækist að lækka vöruverð í Kjörbúðinni þá myndu viðskiptin þar aukast. „Ég ætla að lækka vöruverð, punktur,“ sagði hún.

Hún kom inn á að í fyrra hefðu verið margar verðbreytingar frá birgjum, alls 302 og allar til hækkunar. Árið 2022 hefði verið tap á Samkaupum og því hefði reksturinn verið endurskipulagður í fyrra. Gunnur nefndi að af 10.000 króna vörukörfu í Kjörbúðinni í Neskaupstað yrðu 50 krónur eftir í hagnað hjá Samkaupum. Hún kom einnig inn á flutningskostnað, hann væri 930% hærri en innan höfuðborgarsvæðinu og 52% dýrari til Austurlands en Norðurlands.

Spurt var út í mismunandi verð innan vöruflokka og verðlagningu á einstökum vörum. Gunnur útskýrði að oft ylti það á innkaupsverði og í einhverjum tilfellum nyti Samkaup ekki sömu kjara frá birgjum og samkeppniskeðjurnar. Þannig væru Krónan og Bónus með 3% afslátt hjá MS sem Samkaupum byðist ekki. Sumar vörur væru skilgreindar lykilvörur og væru því ódýrari en aðrar pakkningar.

Kvartað undan ferskvöru og aðgengi


Nokkur gagnrýni kom fram á gæði ferskvöru, einkum grænmetis og brauðs. Gunnur hét því að farið yrði betur yfir dreifingu ferskvöru innan Samkaupa. Hún kallaði eftir ábendingum ef ástand vöru væri ekki í lagi, við því yrði brugðist. Þá var komið inn á að stór hluti búðarinnar væru orkudrykkir og sætindi. Gunnur sagði hlutfall þeirrar óhollustu vera að minnka.

Aðgengismál í búðinni voru gagnrýnd töluvert harkalega en fólk í hjólastól býður í anddyri meðan aðstoðarfólk kaupir inn fyrir þess hönd. „Fólkið býr sjálfstætt en getur ekki verið sjálfstætt vegna þess að verslunin í heimabyggðinni er ekki boðleg,“ sagði einn fundargesta. Gunnur sagði að málið yrði skoðað fljótt en almennt væri endurskoðun uppröðun verslunarinnar ekki á dagskrá á þessu ári.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.