Ekkert niðurbrot á ýmsum „niðurbrjótanlegum“ umbúðum eftir sjö mánuði í jörð
Tilraun sem nemendur við Hallormsstaðaskóla gerðu í haust með því að grafa rusl af ýmsum toga, sem allt var merkt sem niðurbrjótanlegt að fullu eða hluta, leiddi í ljós að eftir sjö mánuði í mold sá lítið sem ekkert á neinu.
Eins og sjá má á meðfylgjandi samsettu mynd fór eitt og annað metra ofan í jörðina í tilraun þessari í haust og þar á meðal tvö pappírsmál sem skráð voru sem niðurbrjótanleg að fullu. Efri myndin sýnir svo ástand ruslsins þegar upp var tekið í vikunni. Allt nokkuð skítugt en lítið sem ekkert niðurbrot á neinu og bæði pappamálin enn nothæf að sögn starfandi skólastjóra Rögnu Dagbjörtu Davíðsdóttur.
Enn hægt að drekka úr pappírsmálum
„Þetta tengdist námskeiði sem við vorum með í úrgangsstjórnun. Þar vorum við að tína til hvað fellur mikið til af rusli og hvað fyrirtæki mörg eru að réttlæta umbúðir sínar með því að þær séu niðurbrjótanlegar og ákváðum í kjölfarið að framkvæma þessa tilraun. Við grófum þetta allt því niður seint síðasta haust og niðurbrotið var nánast ekkert. Við hefðum bókstaflega getað drukkið úr þessum pappírsbollum eftir þennan tíma og þessir grænu, niðurbrjótanlegu pokar, sem fólk er gjarnan að nota í staðinn fyrir plastpoka að ekkert sá á þeim poka nema það að hann var eilítið rifinn.“
Ragna segir að ákjósanlegt hefði verið að halda rannsókn þessari áfram en náminu sé nú lokið og því ekki mögulegt upp á að hafa tilraunina lengri að sinni. Hún segir þó að önnur svipuð tilraun hafi verið gerð á sama tíma en niðurstöður þeirrar tilraunir liggi þó ekki fyrir fyrr en eftir nokkra daga til viðbótar.
Nánast hjátrú
„Mig grunar að þetta sé nokkur friðþæging fyrir okkur neytendur að við séum að endurvinna hitt og þetta sem við kaupum og notum en ég tel þetta nánast vera hjátrú. Ég spyr mig jafnvel hvort betra sé að grafa hreint plast sem við getum hugsanlega í framtíðinni nýtt eða endurunnið með einhverju móti heldur en að grafa einhverja efnablöndu af plasti og lífrænum efnum sem eru hvorki endurunnin að fullu né niðurbrjótanleg.“