Ekkert tjón að ráði hjá Síldarvinnslunni vegna hamfara síðustu vikna
Síldarvinnslan, einn stærsti atvinnurekandi á Austurlandi, hefur ekki orðið fyrir neinu tjóni að ráði vegna snjóflóðahrinanna sem gengið hafa yfir að undanförnu.
Þetta staðfestir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunar, við Austurfrétt en fiskvinnslufyrirtækið rekur viðamikla starfsemi bæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði en flóð féllu sem kunnugt er á báðum stöðum þegar mest gekk á.
Að sögn Gunnþórs voru áhrif snjóflóðanna mun meiri á hluta starfsfólks þeirra sem fyrir varð auk almennra óþæginda þeirra en fyrirtækið sjálft hafi ekki beðið neitt að ráði.
„Síldarvinnslan hefur ekki orðið fyrir neinu tjóni sem orð er á gerandi, það varð röskun á vinnslum þegar vinnsludagar duttu út á Seyðisfirði í frystihúsinu. En eftir stendur að það er umtalsverð hætta á athafnasvæðinu okkar á Seyðisfirði sem þarf að taka afstöðu til og við bíðum í raun eftir endalegu hættumati á svæðinu sem er auðvitað bagalegt.“
Vegurinn fyrir ofan fiskvinnslu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað var líkt og aðrir vegir í bænum ófær um tíma eftir snjóflóðin í lok mars og gerði starfsfólki erfitt um vik að komast í og úr vinnu. En eiginlegt tjón fyrirtækisins er lítið sem ekkert. Mynd AE