Skip to main content

Ekkert vesen þrátt fyrir krapa á Fjarðarheiði í morgun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. júl 2023 09:59Uppfært 05. júl 2023 10:08

Umferð yfir Fjarðarheiði hefur gengið vandræðalaust í morgun þrátt fyrir að krapi hafi verið á leiðinni. Slíkt er blessunarlega sjaldséð í júlí en getur þó gerst.


„Það hefur ekki orðið neitt stórkostlegt vesen. Það var hiti í veginum og hann auðnaðist ágætlega,“ segir Jens Hilmarsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Fellabæ.

Í gærmorgunn gránaði í fjöll á Austurlandi og í nótt bætti í. Jens segir að á Fjarðarheiðinni hafi krapi verið á hæsta hluta hennar, frá vatni að Norðurbrún.

Vegagerðin varar nú við hálkublettum þar. Fyrst í morgun var einnig varað við hálkublettum á Möðrudalsöræfum. Jens segir það hafa verið óverulegt og er sú leið nú merkt greiðfær.

Búist er við rigningu eystra fram yfir hádegið. Síðan er von á þurrara og hlýrra veðri með 20 stiga hita um helgina.

Mynd: Vegagerðin