Skip to main content

Engin forgangsröðun komin á samgönguframkvæmdir í þágu varnarmála

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. sep 2025 11:52Uppfært 05. sep 2025 11:57

Innan íslenska ríkisins liggur ekki fyrir greining á því hvaða innviði þurfi sérstaklega að styrkja þannig að Ísland sé tilbúið að taka á móti hergögnum og herliði ef sérstök ástæða þykir til að verja landið. Aukið framlag til samgöngumála er þó meðal þess sem ríkisstjórnin ætlar í vegna þessa.


Á fundi Eyjólfs Ármannssonar, innviðaráðherra, á Egilsstöðum í síðustu viku, sagði hann að núverandi ríkisstjórn ætlaði að auka útgjöld til vegamála úr 0,6% af vergri landsframleiðslu (VLF) upp í 1%.

Hann bætti því svo við að Atlantshafsbandalagið (NATO) færi fram á að ríki legðu 5% af VLF til varnarmála. Ríkin geta talið ýmsan kostnað þar fram en að sögn Eyjólfs ætla Íslendingar að uppfylla 1,5% af skyldu sinni með framlögum til innviða.

Hafnir og vegir þurfa að þola hergagnaflutninga


Í júlí ræddi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, þessi mál við breska tímaritið The Economist. „Við erum raunsæ með að við verðum að gera meira ef eitthvað gerist á Norður-Atlantshafi. Það þýðir að við þurfum að fjárfesta meira í innviðum, styrkja LHG, byggja hafnir og vegi sem hægt er að treysta á í stríði,“ sagði hún þar.

Varnarsamningur Íslands byggir á því að önnur lönd, svo sem Bretland, Bandaríkin og Noregur, sendi hingað herlið ef ástæða þykir til. Blaðið segir að því þurfi að huga í tíma að til dæmis íslenskar hafnir séu frekar litlar.

Beðið eftir viðmiðum frá NATO


Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar segir að ekki liggi fyrir greining á því hvaða vegi og hafnir þurfi sérstaklega að styrkja í þessum tilgangi. „Slík greining liggur ekki fyrir enda eru viðmið fyrir nauðsynlegar framkvæmdir og styrkingu innviða í vinnslu hjá Atlantshafsbandalaginu og stjórnvöldum.

Í framhaldi af þeirri vinnu mun eiga sér stað vönduð greining, áætlanagerð og framkvæmdir til að styrkja innviði sem nýtast með tilliti til varnar- og öryggismála og til að auka áfallaþol íslensks samfélags.“

Enn beðið eftir framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli


Á fundinum á Egilsstöðum notaði Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi tækifærið til að vekja athygli á ástandi flugvallarins á Egilsstöðum. Í kjölfar atviks sem varð þar árið 2018, þegar nokkrar þotur þurfti að koma inn til lendingar og sú síðasta var nærri orðin eldsneytislaus vegna þess tíma sem tók að koma hinum af brautinni í stæði, var uppbygging Egilsstaða sem varaflugvallar sett í forgang.

Hönnunarferli og annar undirbúningur hefur verið í gangi síðustu misseri en Berglind Harpa benti á að framkvæmdir væru ekki enn hafnar. Hún sagði mikilvægt að varaflugvallagjald, sem samþykkt var á Alþingi árið 2023, skilaði sér til slíkra framkvæmda.