Skip to main content

Ekki fleiri bændur á Austurlandi óskað eftir sauðfjársæðingu um langt árabil

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. des 2023 15:39Uppfært 21. des 2023 15:40

Ekki hafa fleiri austfirskir bændur óskað eftir sauðfjársæðingum í ár en verið hefur um langt skeið að sögn ráðunauts hjá Rannsóknarmiðstöð landbúnaðarins (RML.) Þeirri vertíðinni er lokið að sinni en velflestir sem lögðu inn pöntun óskuðu eftir sæði úr hrútum með riðuvarnararfgerð.

Alls telst Guðfinnu Hörpu Árnadóttur, ráðunaut hjá RML, að fleiri hafi sótt um og fengið nú í ár en verið hefur lengi en hún vill ekki ganga svo langt að segja að um met sé að ræða.

„Ég vil nú ekki fullyrða að um met sé að ræða því það hefur oft verið sent út meira sæði en nú eins og árin frá 2000 til 2010. En þetta er stærsta pöntun á sæði sem ég hef afgreitt síðan ég kom hingað til starfa. Langflestir hafa verið á höttunum eftir sæði úr hrútum með riðuvarnararfgerðina.“

Guðfinna sinnir því hlutverki að taka við pöntunum frá bændum á Austurlandi í desembermánuði ár hvert en það er Búnaðarsamband Austurlands sem sér alfarið um dreifingu til bænda á öllu Austurlandi.

„Ég tek bæði við pöntunum og sæðinu sjálfu þegar það kemur með flugi og deili því út til bænda strax í kjölfarið. Það kemur fyrir að það berst ekki það magn sem pantað var og þá sé ég líka um að hliðra pöntunum og forgangsraða þannig að allir fái einhvern skerf af því sem vinsælast er eða að bændurnir fái eitthvað í staðinn sem er sambærilegt að gæðum.“

Guðfinna hefur ekki tekið nákvæmlega saman hversu margir bændur lögðu inn pöntun að þessu sinni en alls voru á milli 2.600 og 2.700 skammtar alls pantaðir austur.

„Svona ef ég þyrfti að giska þá myndi ég segja að á milli 55 og 75 bú hafi lagt inn pöntun. Ég vona bara að allir hafi tekið þátt sem áhuga höfðu að þessu sinni.“

Eðli máls samkvæmt eru sauðfjárbændur spenntir fyrir að fjölga fé sínu með sæði úr hrútum með riðuvarnararfgerð enda til mikils unnið ef tekst að vinna bug á riðuveiki í stofninum hérlendis. Mynd RML