Skip to main content

Ekki fleiri sótt um fjárhagsaðstoð í Fjarðabyggð um fjögurra ára skeið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. des 2023 11:56Uppfært 06. des 2023 11:58

Umsóknum um fjárhagsaðstoð til félagsþjónustu Fjarðabyggðar hefur fjölgað drjúgt á yfirstandandi ári eftir að slíkum umsóknum hafði fækkað jafnt og þétt síðustu árin.

Umsóknir þessa árs eru rétt tæplega 150 talsins og enn eru nokkrar vikur eftir af árinu svo þeim gæti fjölgað meira en þegar er orðið. Vel þekkt er að jólamánuðurinn er jafnan með þeim allra erfiðustu ef lítið er milli handa á heimilum fólks.

Þetta umtalsvert fleiri umsóknir en síðustu tvö ár þegar heildarfjöldi umsókna um fjárhagslega aðstoð voru rúmlega 90 talsins bæði árin.  Þarf að fara aftur til ársins 2019 til að finna fleiri slíkar umsóknir en á þessu ári en þá sóttu um 160 aðilar um aðstoð frá sveitarfélaginu.

Fjárhagsaðstoð félagsþjónustunnar getur bæði verið í formi vaxtalauss láns eða beins styrks en rétt á slíkri aðstoð eiga allir með lögheimili í Fjarðabyggð, með tekjur undir ákveðnum viðmiðum og geta ekki séð sér farborða með öðrum hætti.