Skip to main content

Ekki heyrst af meiru en smáspýju á Norðfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. jún 2025 10:28Uppfært 04. jún 2025 10:30

Ekki hafa borist tilkynningar um önnur skriðuföll á Austurlandi eftir úrkomu síðasta sólarhrings en um litla spýju í lækjarfarvegi á Norðfirði. Mesta hættan er talin liðin hjá þótt enn eigi eftir að rigna nokkuð nyrst í fjórðungnum.


Lítil skriða féll niður lækjarfarveg rétt innan við byggðina í Neskaupstað um kvöldmatarleytið í gær. Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar hafa hvorki borist tilkynningar um aðrar skriður né grjóthrun eftir nóttina. Veðurspá um að úrkoman myndi minnka í nótt hefur gengið eftir.

Vegna spár um mikla úrkomu ofan í nýfallinn snjó til fjalla sendi Veðurstofan í gær frá sér viðvörun um hættu á skriðuföllum. Sérstaklega var fylgst með Seyðisfirði og Eskifirði þótt grunnvatnsstaða þar væri einstaklega lág eftir þurrka síðustu vikna.

Hætta er talin liðin hjá að langmestu leyti á veðurspásvæðinu Austfjörðum. Sigurdís Björg Jónasdóttir, skriðusérfræðingur á ofanflóðadeildinni, segir að sú rigning sem spáð er á svæðinu næstu daga sé ekki það mikil að hætta sé á skriðum. „Fram til laugardags er spáð 50 mm á til dæmis Gagnheiði en svæðið þolir margfalt það úrkomumagn.“

Áfram von á talsveðri rigningu í kringum Vopnafjörð


Áfram er spáð talsverðri úrkomu nyrst á Austurlandi, einkum í kringum Vopnafjörð en einnig nokkurri á Borgarfirði. Samkvæmt korti sem Veðurstofan birti á mánudag var spáð 370 mm uppsafnaðri úrkomu á Smjörfjallasvæðinu fram til föstudags.

Ekki eru úrkomumælar á því svæði þannig erfitt er að meta hversu nákvæmlega sú spá gengur eftir. Uppsöfnuð úrkoma á Skjaldþingsstöðum undanfarinn sólarhring er 69 mm en þar hefur líka dregið úr henni. „Það er viðbúið að það rigni talsvert í viðbót á þessu svæði.“

Sigurdís segir að á því svæði sem áfram rignir á sé almennt minni hætta á skriðuföllum og ekki talin hætta í byggð. „Þetta eru staðir sem þola úrkomu.

Hins vegar verði áfram fylgst með gangi mála og íbúar hvattir til að tilkynna skriður til Veðurstofunnar.

Mynd: Hlynur Sveinsson