Ekki leitað að loðnu um helgina
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. feb 2024 14:41 • Uppfært 16. feb 2024 14:43
Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson lauk leit sinni að loðnu suðaustur af landinu í gær og veiðiskipið Polar Ammassak er að ljúka sinni athugun. Ekki hefur fundist nægilegt magn loðnu til að gefa út veiðikvóta en áformað er að halda leit áfram í næstu viku.
Skipin voru send suðaustur fyrir land eftir að fréttir bárust um loðnu á ferðinni frá kolmunnaveiðiskipum á leið til Austfjarða af miðunum sunnan við Færeyjar.
Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir niðurstöðu athugananna vera þá að lítið magn loðnu sé á ferðinni. Svo virðist sem magnið sé svipað og mælt var austan við Kolbeinseyjarhrygg í janúar og því líklegt að um sé að ræða sömu loðnutorfurnar, aðeins komnar lengra.
Bjarni Sæmundsson lauk sinni leit í gær en Polar Ammassak, skip hlutdeildarfélags Síldarvinnslunnar, hélt áfram eftir leitarslóð til norðurs. Bætt var við einum leitarlegg en reiknað er með að athugun á honum ljúki í nótt.
Guðmundur segir að hlé verði gert á loðnuleit allra næstu daga, að öðru leyti en því að kolmunnaskipin dreifa sér eftir ákveðnum leiðum á ferðum sínum til og frá miðunum. Seinni hluta næstu viku er líklegt að leitað verði með veiðiskipum á svipuðum slóðum og síðustu daga, suðaustur af landinu en sú leit hefur ekki verið skipulögð til fulls.
Eins er verið að skoða hvernig hægt sé að vakta norðvesturmið. Hafrannsóknastofnun sér um það en þarf trúlega að leigja til þess skip þar sem viðgerð á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni hefur dregist.
Þótt ekkert hafi fundist enn er ekki öll nótt úti enn. Þann 22. febrúar í fyrra var 100.000 viðbótarkvóti gefinn út á vertíðinni. „Menn hafa séð ýmislegt í gegnum tíðina þótt ég þekki það ekki nákvæmlega. En við vitum hvað gerðist í fyrra, þá kom norðvestan ganga á þessum árstíma og þess vegna verður það svæði vaktað.“