Ekki meiri afli á land hjá Síldarvinnslunni í sjö ár
Leita verður aftur til ársins 2015 til að finna hliðstætt magn afla sem borist hefur á land og í vinnslu í verksmiðjum Síldarvinnslunnar fyrstu fimm mánuði ársins.
Þetta kemur fram í fréttabréfi fyrirtækisins en það sem af er ári hafa fiskimjölsverksmiðjur þess í Neskaupstað og á Seyðisfirði tekið á móti rúmlega 200 þúsund tonnum af hráefni. Langmest af loðnu eða um 135 þúsund tonn auk 65 þúsund tonna af kolmunna.
Öll vinnsla hefur gengið að óskum ef frá eru taldir síðustu dagar kolmunnavertíðar þegar fiskurinn var orðinn fullur af átu en skip hafa komið með allan afla vel kældan að landi sem bæði auðveldar alla vinnslu í landi og heldur vörunni ferskari en ella.
Eftirspurn er mikil eftir mjöli og lýsi og fínt verð fæst á mörkuðum fyrir þessar vörur. Megnið af því fer til erlendra laxeldisfyrirtækja í Skotlandi og Noregi.