Ekki meiri ókunn jarðvegsmengun austanlands en annars staðar

Landsvæði á Austurlandi eru ekki mengaðri en aðrir staðir í landinu en þó er víða þar að finna hugsanlega mengaðan jarðveg sem Umhverfisstofnun (UST) var ekki kunnugt um. Sérstök leit að slíkum stöðum á landsvísu hefur staðið yfir frá síðasta hausti.

Kortlagning megnaðs jarðvegs í þágu komandi kynslóða er verkefni sem Umhverfisstofnun hóf síðastliðið haust með fundaherferð kringum landið og þar óskað upplýsinga frá íbúum um mengaða staði sem hægt væri í kjölfarið að kortleggja og þannig fá góða yfirsýn yfir hugsanleg jarðsvæði þar sem mengun væri yfir leyfilegum mörkum.

Eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskoti af vef UST þar sem átakið var kynnt mætti draga þá ályktun að á Austurlandi væri staðan sérstaklega slæm í þessu tilliti. Svo er þó ekki að sögn Kristínar Kröyer sérfræðings hjá stofnuninni.

„Nei, alls ekki svo. Þetta er einungis sjón hönnuða vegna verkefnisins og tengist ekkert meiri mengun austanlands en annars staðar. Hins vegar var það svo að það fengust einna ítarlegastar upplýsingar um hugsanlega mengaðan jarðveg á ferð okkar á Austurlandinu og við fengum sannarlega góðar upplýsingar bæði á fundi okkar á Reyðarfirði og á Egilsstöðum.“

Ábendingarnar fara áfram frá UST til heilbrigðiseftirlita á landsbyggðinni sem framkvæmda þurfa mælingar á jarðvegi til að ganga úr skugga um að þar sé sannarlega mengun.

„Það tekur auðvitað tíma enda er þetta hrein viðbót við allt annað sem heilbrigðiseftirlit þurfa að skoða og nóg er fyrir á þeirra könnu í flestum tilfellum. Við eigum reyndar enn eftir að kanna Suðurland og að hluta til suðvesturland í þessu tilliti svo að rannsókninni er ólokið. En ég get fullyrt að það er ekki sérstaklega mikil mengun austanlands umfram aðra landshluta.“

Ókunn mengun í jarðvegi getur haft alvarleg áhrif til lengri tíma litið að sögn Kristínar og þess vegna var verkefninu hleypt af stokkunum í fyrra.

„Við getum bara ímyndað okkur ef skipulögð er íbúðabyggð eða einhvers konar byggð á menguðu svæði þá getur það auðveldlega haft afleiðingar þegar fram líða stundir fyrir bæði íbúa og sveitarfélög. Þessu verkefni er ætlað að koma í veg fyrir slíkt.“

Kynningarmynd UST af verkefninu gaf til kynna að Austurland væri mengaðasti staður landsins. Það hins vegar ekki raunin. Skjáskot UST.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.