Ekki talið að hesturinn hafi verið skotinn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. okt 2023 11:56 • Uppfært 26. okt 2023 14:54
Athugun dýralæknis á hesti, sem fannst í hestagirðingu við eyðibýlið Glúmsstaði í Eiðaþinghá um síðustu helgi, hefur leitt í ljós að hesturinn hafi ekki verið skotinn. Áverki á hestinum þótti í fyrstu helst líkjast skotsári.
Eigendur hestsins tilkynntu lögreglu um atburðinn síðasta sunnudag. Áverki á hestinum benti til skotsárs þannig að dýralæknir á vegum MAST og lögregla rannsökuðu bæði vettvang og dýrið, auk þess sem sýni voru tekin.
Samkvæmt bráðabrigðaskýrslu dýralæknis er ekki talið að hesturinn hafi verið skotinn. Að öðru leyti er óráðið hvers vegna hesturinn drapst. Sem stendur er helst talið að áverkinn hafi verið af höndum meindýrs.
Þá hefur lögreglan á Austurlandi síðan í júlí haft til rannsóknar orsök þess að tíu hundar fundust dauðir á bæ í Breiðdal. Hundarnir voru krufnir og sýni úr þeim send í eiturefnagreiningu.
Eftir því sem næst verður komist fannst ekkert athugavert við þær rannsóknir. Hjá lögreglu fengust þær upplýsingar að rannsókn stæði enn yfir en fátt væri um vísbendingar.