Skip to main content

Ekki talið tímabært að fækka sveitarstjórnarfulltrúum Múlaþings

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. sep 2025 10:16Uppfært 26. sep 2025 11:37

Byggðaráð Múlaþings telur ekki ástæðu til á þessu stigi að fækka fjölda sveitarstjórnarfulltrúa sveitarfélagsins en KPMG var fengið til að gera úttekt þar að lútandi eftir athugasemdir Þrastar Jónssonar úr Miðflokki síðastliðið vor.

Taldi fulltrúi Miðflokksins eðlilegt að fulltrúum yrði fækkað á næsta kjörtímabili úr ellefu, eins og fjöldinn hefur verið frá sameiningu í Múlaþing, niður í sjö fulltrúa enda væri fulltrúafjöldinn í Múlaþingi mun meiri en í öðrum sambærilegum sveitarfélögum í landinu.

Fjöldinn almennt sjö til níu

Almennt eru sjö til níu sveitarstjórnarfulltrúar hjá sambærilegum sveitarfélögum öðrum eða allt að því fjórir færri en sitja fyrir hönd Múlaþings í sveitarstjórn. Það væri mjög undarlegt ef Múlaþing kæmist ekki af með jafn marga að mati Þrastar. Ekki hvað síst þegar ýmsum hnökrum vegna sameiningarmála síðustu árin hafi mjög fækkað.

Bókun Þrastar þessa efnis í vor var tekin fyrir í sveitarstjórn í byrjun maí og þar samþykkt með níu atkvæðum að senda málið til efnislegrar hjá byggðaráði. Í kjölfar þess var KPMG fengið til að vinna úttekt vegna þessa en í því minnisblaði kom ekkert fram um að fækkun fulltrúa væri óæskileg eða miður góð en byggðaráðið taldi engu að síður að ótímabært væri að fækka fulltrúum að svo stöddu. Málinu vísað þaðan til sveitarstjórnar.

Furðuleg niðurstaða

Þröstur, sem er áheyrnarfulltrúi í byggðaráði furðaði sig á þessari niðurstöðu á síðasta sveitarstjórnarfundi:

 „Á 60. Sveitarstjórnarfundi var heilmikil umræða um málið undir fundargerðum Byggðaráðs. Þar kom ekkert annað fram en að meirihlutinn væri enn hlynntur fækkun og kom það fram í máli [þriggja fulltrúa meirihlutans.] Nú er svo komið að meirihlutinn hefur tekið 180° beygju og „beilar út. Skorti kjarkinn? Ákvarðanafælni? Ótti við að rugga bátnum rétt fyrir kosningar?“

Ellefu manna sveitarstjórn Múlaþings á ferð í náttúrunni fyrir nokkru. Fjöldinn töluvert umfram það sem gerist í sambærilegum sveitarfélögum. Mynd Múlaþing