Skip to main content

Ekki þörf á frekara umhverfismati vegna Suðurleiðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 14. júl 2023 11:13Uppfært 14. júl 2023 11:15

Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að ekki sé þörf á nýju umhverfismati vegna breyttrar legu vegar frá væntanlegum Fjarðarheiðargöngum við Egilsstaði. Ný veglína fer framhjá búsetusvæði blæaspar, sem er friðuð tegund.


Í fyrirspurn sinni til Skipulagsstofnunar lagði Vegagerðin fram tvær veglínur til samanburðar við veglínu A, sem áður var fyrsti valkostur. Sú veglína sem nú er unnið eftir er nefnd B og er gul á myndinni hér að neðan. Með henni færist leiðin enn innar, eða sunnar.

Með henni er stefnt að því að gefa mögulegu byggingarlandi sunnan Egilsstaða meira rými og draga úr áhrifum á plöntutegundir eða vistgerðir sem njóta verndar. Samkvæmt yfirliti í ákvörðum Skipulagsstofnunar veldur leið B minna raski á votlendi, túnum og birkiskógi en nú er. Mestu munar þó um að ekki verður hróflað við blæöspinni. Hún er hins vegar inni á áhrifasvæði framkvæmdarinnar og í umsögn Náttúrufræðistofnunar er lögð áhersla á að vel verði gætt að henni við lokahönnun og framkvæmdir.

Suðurleiðin hefur alltaf neikvæð áhrif á gróður


Fram kemur þó hjá báðum stofnunum að tilfærslan breyti því ekki að allar veglínurnar feli í sér neikvæð áhrif á gróður og vistgerðir. Náttúrufræðistofnun gaf á sínum tíma mjög neikvæða umsögn við mat á umhverfisáhrifum um Suðurleiðina en vildi fara Miðleið, sem er í raun núverandi leið.

Í umsögn stofnunarinnar nú segir að valkostur B sé skásta útfærslan af Suðurleiðinni og jákvætt að blæöspinni verði hlíft. Vegurinn feli þó áfram í sér umtalsvert rask á vistgerðum með hátt verndargildi og búsetusvæðum fugla. Við þessu þurfi að bregðast með endurheimt votlendis og nánari rannsóknum á fléttutegundum á svæðinu, eins og ráð hefur verið gert fyrir.

Skógræktin segir birkiskóginn ekki hafa teljandi verndargildi en leggur áherslu á mælingar og endurrækt skógar. Skógræktin fagnar því að blæöspinni verði hlíft. Minjastofnun hefði kosið veglínu C til að sneiða frá minjasvæðum en leggst ekki gegn neinni veglínu svo framarlega sem mótvægisaðgerðum er sinnt, sem fyrst og fremst felast í skráningu.

Gott að brugðist sé við ábendingum


Umhverfisstofnun fagnar tilfærslunni og segir hana vitni um að mat á umhverfisáhrifum virki eins og til sé ætlast. Þar sé upplýst um áhrif framkvæmda og fengnar ábendingar um hvað megi betur fara. Vinnubrögð sem nú mætti viðhafa oftar. Stofnunin leggst beinlínis gegn frekara umhverfismati með að benda á að þegar brugðist sé við athugasemdum með jákvæðum breytingum þá megi það ekki verða til þess að lengja langt ferli enn frekar því þá skapist hætta á að framkvæmdaaðilar hiki við að breyta til batnaðar.

Samhliða athugun á breyttri Suðurleið mat Skipulagsstofnun áhrif tilfærslu inntakslóns fyrir neysluvatn Seyðfirðinga. Til stendur að það verði rétt fyrir ofan gangamunnann við Gufufoss. Almennt er talið að færslan sé til bóta því hún dragi úr mengunarhættu. Þó er hætta á að rennsli um fossinn skerðist, einkum á veturna og verði þá sýnilegra minna vatn í honum. Skerðing á sumarrennsli er áætlað 5%.

Myndir: Vegagerðin

sudurleid juli23