Eldingar og haglél á Stöðvarfirði í gærkvöldi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. júl 2025 09:55 • Uppfært 07. júl 2025 09:56
Skyndileg veðrabrigði um kvöldmatarleytið í gærkvöldi komu Stöðfirðingum í opna skjöldu. Eldinga og úrkomu varð vart víðar um fjórðunginn.
Samkvæmt yfirliti Veðurstofunnar mældust hátt í 60 eldingar við Austfirði í gærkvöldi. Þorri eldinganna var við Kambanes og úti fyrir því um klukkan 19:24 til 20:00. Eldingarnar færðust fjær landi eftir því sem á leið.
Eldingar eru einnig skráðar norðar á þessum tíma og eftir. Önnur hrina með sex eldingum kom svo um klukkan 22:15 yfir Reyðarfirði þar sem þungi hennar var úti við Vattarnes.
Arnar Snær Sigurjónsson, íbúi á Stöðvarfirði, segir veðrabrigðin þar í gærkvöldi hafa verið skyndileg. „Það var mjög hlýtt í gær, hálfgert sólstrandarveður. Það er sjaldan svo gott hér því það er oft hafgola hér úti við ströndina en það var ekki í gær.
Um kvöldmatarleytið byrjaði þetta á að við heyrðum þrumur og svo skall þetta ægilega haglél á í svona tíu mínútur. Þau voru vel sýnileg, mér skilst allt að 8 mm. stór. Það dökknaði hratt yfir og við sáum ekki eldingarnar. Síðan skall á ægileg rigning. Það var eins og hellt væri úr fötu. Þá hvarf haglið fljótt.“
Austurfrétt hefur spurnir af hagléli víðar í gær. Eins skall á rigning sem var að minnsta kosti meiri en hægt var að sjá út úr veðurspám.