Eldra fólk annars staðar frá farið að sækja í ódýrar eignir á Austurlandi
Frá því snemma í vor hefur fasteignamarkaðurinn á Austurlandi verið með líflegra móti og enn er töluverð hreyfing að sögn fasteignasala þó það sé fyrst og fremst varðandi ódýrari eignir. Athygli hefur þó sérstaklega vakið aukinn áhugi eldri borgara, af höfuðborgarsvæðinu sérstaklega, á ódýrari eignum austanlands.
Þá þróun mála segir Þórdís Pála Reynisdóttir hjá LF-fasteignasölu, vera að koma nokkuð á óvart en hún staðfestir einnig að góð hreyfing hafi verið á fasteignamarkaðnum á Austurlandi alla síðustu mánuði.
„Sumarið er búið að vera gott og enn er mikið að gera en ég finn glögglega að það eru fyrst og fremst ódýrari eignirnar sem fólk er að skoða og einbeita sér að. Framboðið hefur verið meira en eftirspurn svo þetta hefur verið kaupendamarkaður meira en hitt. Þetta hefur verið þannig að spurningin er hver verður sá heppni sem nær að selja því að kaupendur hafa um nokkrar svipaðar eignir á svipuðu verði um að ræða.“
Áhugi frá tiltölulega nýjum hóp fólks
Aðspurð um hvort það sé þá ekki fyrst og fremst unga fólkið sem er á höttunum eftir ódýrari eignunum í þeirri tíð sem nú ríkir segir Þórdís það, merkilegt nokk, ekki vera nema að litlum hluta til.
„Svo er það raunin að þegar allt er svona dýrt eins og raunin hefur verið að þá eykst fjöldi þess fólk annars staðar frá sem leitar í að kaupa ódýrari eignir úti á landi Gjarnan er þar um að ræða eldra fólk af höfuðborgarsvæðinu sem kannski er með dýra leigu eða háar afborganir af húsnæði. Þetta sérstaklega áberandi nú með haustinu að fullorðið fólk annars staðar frá, sem kannski er orðið eitt eftir að börnin eru farin að heiman, eru að skoða kaup hér til að létta á sinni greiðslubyrði. Auðvitað er líka áhugi hjá ungu fjölskyldufólki en það áberandi hvað fullorðið fólk, sem ekki einu sinni á rætur hér, er að kaupa eignir eða skoða kaup.“
Þórdís segir vitaskuld gott að utanaðkomandi fólk sýni áhuga á að setjast að á Austurlandi en það sýni kannski líka að mikil dýrtíð sé í þjóðfélaginu þegar fólk með litlar eða engar tengingar sé að kaupa eignir víðs fjarri núverandi staðsetningu.