Skip to main content

Eldri borgarar taka af skarið með örnefnaskráningu á Vopnafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. maí 2025 10:51Uppfært 02. maí 2025 11:02

Taska ein full af mikilvægum ábendingum um örnefni víðs vegar í Vopnafjarðarhreppi hefur verið að velkjast milli manna í áraraðir án þess að gengið væri frá með sómasamlegum hætti og gert aðgengilegt á stafrænu formi. Nú hafa eldri borgarar í hreppnum gripið í taumana.

Vandamálið hefur ekki beint verið að örnefnaskráning hafi ekki verið til staðar hjá sveitarfélaginu heldur öllu frekar að vantað hefur að koma þeim gögnum á stafrænt nútímaform svo aðgengilegt verði öllum hvar sem er.

Þegar eldri borgurum bauðst í vetur að taka það verkefni að sér héldu þeir fund þar sem allnokkrir lýstu áhuga sínum að taka þátt og nægilegur fjöldi sýndi því áhuga til að hópurinn tók verkið að sér og nú er það komið ágætlega á veg að sögn Sigríðar Bragadóttur sem er leitt hefur verkefnið.

„Við fengum í vetur afhenta fulla tösku af örnefnum frá velflestum bæjum í Vopnafirðinum og margt af því er löngu búið að skrá niður með formlegum hætti. Það sem hefur hins vegar vantað er að ekkert af þessum gögnum eru komin á stafrænt nútímaform svo enginn getur nálgast þessar upplýsingar eins og staðan hefur verið.“

Inn í nútímann

Taska þessi með þessum mikilvægu upplýsingum sem eiga á hættu að glatast endanlega hafa þvælst milli fólks um langa hríð án þess að mikið gerðist að sögn Sigríðar.

„Við félagar eldri borgar vorum spurð hvort við hefðum áhuga að taka þetta að okkur og eftir fund okkar á milli þar sem 20 manns sýndu þessu áhuga var ákveðið að Félag eldri borgara myndi koma verkinu af stað. Við fengum fljótlega til okkar tvo fagmenn að norðan sem sýndu okkur hvernig ætti að fara að hlutunum. Síðan þá hefur þetta gengið mætavel og nú erum við búin að panta þartilgerð kort og á næstunni verður námskeið með fræðingum frá Landmælingum Íslands til að kenna okkur hvernig skal færa hlutina rétt inn á þau kortin.“

Tveggja ára ferli

Sigríður segir hluta félagsmanna vera bændur sem séu önnum kafnir nú þegar vora tekur með tilheyrandi nauðsynlegum verkum. Engu að síður gælir hún við að verkið geti hafist fljótlega og gælir við að því verði að fullu lokið að tveimur árum liðnum. Í kjölfarið geti hver sem er, hvar sem er, kynnt sér nákvæm og rétt örnefni hinna ýmsu staða í Vopnafirði.