Eldri skálinn að Stöð nær fullrannsakaður eftir síðasta sumar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. maí 2025 16:55 • Uppfært 19. maí 2025 17:00
Á næstunni hefst tíunda uppgraftarsumarið að Stöð í Stöðvarfirði. Meðal þess sem kom í ljós í fyrra var nytjahola frá víkingaöld, hellulögð á öllum hliðum. Slíkar holur frá þessum tíma hafa ekki áður fundist hérlendis.
Erlendis er vel þekkt að slíkar holur voru notaðar til lýsisgerðar. Bjarni F. Einarsson, sem stýrir uppgreftrinum, hefur lengi haft kenningar um að Stöð hafi byggst upp sem útstöð. Fólk hafi komið líklegast frá Noregi og haft þar aðsetur í einhvern tíma til að vinna úr auðlindum staðarins. Í þessu samhengi sé ekki fráleitt að lýsisgerðarmenn hafi haft vetrarsetu að Stöð.
Síðasta sumar var lítið um einstaka stóra fundi en rannsóknirnar gáfu áfram betri heildarmynd um lífið á staðnum og kalla í einhverjum tilfellum á nánari athugun.
Þungamiðjan á Stöðvarfirði eru tveir skálar, eða hús, hvor ofan á öðrum. Sá efri og þar með nýrri er frá landnámstímanum en sá sem er undir er talinn frá því fyrir eiginlegt landnám. Enn dýpra eru vísbendingar um enn eldri mannvirki.
Ný svæði sem vekja áhuga
Síðasta sumar var nánast lokið við það að fullrannsaka stærri skálann, það er að segja þann eldri. Þá voru einnig opnaðar rústir húss norðaustan við skálana. Þar fundust óvenju margar steinskífur, sem benda til einhvers konar vinnu. Eins kom þar í ljós blástursjárn, hið fyrsta sem finnst á Stöð sem bendir til járnvinnu á staðnum. Til stendur að kanna það nánar í sumar.
Flogið var yfir svæðið með flygildi sem tekur þrívíddarmyndir. Mikil vinna hefur verið lögð í að finna naust, sem gæti hafa geymt skip fólksins sem kom í útstöðina, en það ekki fundist. Hins vegar fundust svæði, einkum austan við skálana, sem áhugi er á að rannsaka í sumar.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.