Endurbyggingu Hafnarhólmsvegar lýkur með haustinu
Ef frátalin er töluverð endurnýjun á Almannaskarðsgöngum sem lýkur í þessum mánuði mun Vegagerðin halda áfram með eða hefja framkvæmdir við ein átta mismunandi verkefni á Austurlandi á næstu misserum.
Þar er endurnýjun Fáskrúðsfjarðarganga stærsta verkefnið en þar skal bæta öryggi með steyptum vegöxlum og endurnýja allan ljósa- og rafbúnað þeirra ganga. Því verki skal vera lokið í nóvember á næsta ári.
Þá stendur til að endurbyggja 4,6 kílómetra á Jökuldalsvegi milli Arnórsstaða og Langagerðis en því mun ekki ljúka fyrr en haustið 2025. Endurbygging Hafnarhólmsvegar á Borgarfirði eystri er vel á veg komin og verklok þar áætluð næsta september.
Vegagerðin áætlar ennfremur að fræsa og styrkja tvo 0,5 kílómetra langa kafla á Þjóðvegi 1 í Jökuldal í sumar og einnig skal ljúka sams konar verki á eins kílómetra löngum kafla við Breiðdalsvík. Þá skal og farið í viðhaldsvinnu á tveimur brúm austanlands í sumar. Annars vegar brúna yfir Múlaá í Skriðdal og hins vegar yfir Helgustaðará í Eskifirði.