Endurraðað í kjörstjórnum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 08. apr 2022 09:31 • Uppfært 08. apr 2022 09:43
Austfirskar sveitarstjórnir hafa í vikunni kosið nýja fulltrúa í kjörstjórnir en ljóst var að þess þyrfti í ljósi hertra vanhæfnisregla við sveitarstjórnarkosningar.
Eins og Austurfrétt greindi frá fyrst fjölmiðla skapa hertu reglurnar nokkurn höfuðverk þar ljóst er að fjöldi fulltrúa í kjörstjórnum er vanhæfur vegna skyldleika við einstaklinga á framboðslistum. Þannig er þegar ljóst að um þriðjungur allra aðal- og varafulltrúa í kjörstjórnum Múlaþings er vanhæfur.
Full áhrif þessa eru ekki enn komin í ljós þar sem frestur til að skila inn framboðum rennur ekki út fyrr en á hádegi í dag. Þá hafa sveitarstjórnirnar einkum enn möguleika til að bregðast við vanhæfni í undirkjörstjórnum.
Nýir fulltrúar hafa hins vegar í vikunni verið skipaðir í yfirkjörstjórnir, þar sem þeirra verk er að taka á móti framboðslistunum og skera úr um hvort þeir fullnægi skilyrði.
Í Múlaþingi vék Jón Jónsson, formaður kjörstjórnar en Hlynur Jónsson lögmaður var kosinn í hans stað. Ólöf Ólafsdóttir kom inn sem varamaður. Hinir fjórir fulltrúar yfirkjörstjórnar eru enn óbreyttir.
Í Fjarðabyggð tekur Agnar Bóasson sæti Rutar Hafliðadóttur í yfirkjörstjórn. Einnig hefur verið skipaður nýr fulltrúi í undirkjörstjórn á Reyðarfirði.
Á Vopnafirði voru engar breytingar gerðar á yfirkjörstjórn á fundi hreppsráðs í vikunni. Þær fengust hins vegar þær upplýsingar í vikunni að ljóst væri að reglurnar myndu hafa áhrif þótt aðeins væri enn kominn fram einn listi.