Skip to main content

Endurreisa Þroskahjálp á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. maí 2025 13:52Uppfært 16. maí 2025 14:28

Boðað hefur verið til aðal- og endurreisnarfundar samtakanna Þroskahjálpar á Austurlandi á morgun. Einn af forsprökkum fundarins segir markmiðið að tryggja betur réttindi foreldra og barna með fatlanir og styrkja tengsl þeirra.


„Við erum tvær, ég og Elsa Guðný Björgvinsdóttir, sem höfum leitt undirbúninginn. Félagið hefur verið í dvala í mörg ár og okkur langar til að það taki til starfa á ný. Okkur finnst rétt að láta reyna á það eða leggja það niður.

Landssamtökin hafa líka ýtt á okkur síðustu misseri með þetta og við fáum góða aðstoð þaðan. Formaður og skrifstofustjóri koma á fundinn á morgun. Samtökin á Vesturlandi voru endurvakin með svipuðum hætti síðasta haust,“ segir Kolbrún Erla Pétursdóttir.

Þroskahjálp eru regnhlífasamtök félaga sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks. Meðal aðildarfélaga eru Downs-félagið, Einhverfusamtökin, Styrktarfélag lamaðra- og fatlaðra, ýmis foreldrafélög barna með fatlanir og landshlutasamtökin.

Kolbrún segir svæðisfélögin skipta máli til viðbótar við landsfélagið. „Tilgangur Þroskahjálpar á Austurlandi er að foreldrar barna með fatlanir, fólk með fatlanir og aðstandendur hafi málsvara í heimabyggð. Það geta alltaf komið upp ágreiningsmál eða þörf á baráttu fyrir réttindum.

Þetta er líka vitundarátak, að láta vita að í fjórðungnum sé aðili sem hægt er að leita til með aðstoð, svo sem að sækja réttindi. Við viljum líka auka tengslin milli fólks hér fyrir austan. Þótt stóra baklandið sé í Reykjavík er oft langt að leita þangað,“ segir hún.

Fundurinn hefst klukkan 11 á morgun, laugardag og verður haldinn í Sláturhúsinu á Egilsstöðum.