Skip to main content

Endurvekja umræðu um jarðgöng yfir á Hérað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. maí 2022 10:36Uppfært 13. maí 2022 10:38

„Þetta mál er alltaf milli tanna á fólki hér í bænum annars lagið og nú langaði okkur að koma þessu betur á framfæri,“ segir Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps.

Sveitarstjórnin lét bóka á sínum síðasta fundi fyrir kosningar í vikunni að endurvekja umræðu um jarðgöng úr Vopnafirði yfir á Hérað og hvetur jafnframt komandi sveitarstjórn til að taka málið upp sem allra fyrst.

Umrædd jarðgöng eru bæði á formlegri yfirlitsáætlun Vegagerðarinnar um jarðgöng og gert er ráð fyrir þeim göngum í svæðisáætlun Austurlands. Þau eru þó ekki inni í samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sem nær til ársins 2034.

Sara segir að til standi að fara í nánari greiningu á göngum af hálfu sveitarfélagsins og afla frekari gagna en með opinberri umræðu megi auka þrýsting á að verkefnið komist á koppinn öllum til hagsbóta.

Jarðgöng úr Vopnafirði yfir á Hérað hafa verið til tals af og til um áratugaskeið en nú vill fráfarandi sveitarstjórn koma málinu á rekspöl. Mynd GG.