Engar ákvarðanir varðandi fiskeldi í Mjóafirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. júl 2025 10:07 • Uppfært 03. júl 2025 10:09
Engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi leyfismál fyrir fiskeldi í Mjóafirði. Bæjarráð Fjarðabyggðar hvatti til þess nýverið að leyfi þar yrðu boðin út.
Austurfrétt óskaði eftir upplýsingum frá matvælaráðuneytinu vegna bókunarinnar. Í svari ráðuneytisins segir aðeins að málefni sjókvíaeldis séu til endurskoðunar þar og engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi Mjóafjörð.
Bæjarráðið ítrekaði í júní fyrri bókanir sínar um að leyfi til fiskeldis í Mjóafirði yrði boðið út. Samkvæmt reglum frá árinu 2019 skulu leyfi í fjörðum boðin út en áður var það þannig að eldisfyrirtæki höfðu frumkvæði að því að sækja um leyfin.
Fyrir liggur burðarþolsmat á Mjóafirði um að þar sé hægt að ala 10 þúsund tonn af laxi. Það hefur hins vegar ekki verið uppfært. Þá hefur einnig strandað á því að ný lög um lagareldi hafa ekki verið samþykkt og staða þeirra er óljós eftir ríkisstjórnarskiptin í vetur.
Þau voru ekki á þingmálalista ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þing. Í stjórnarsáttamála segir að styrkja eigi lagaumgjörð fiskeldis til að sporna gegn neikvæðum áhrifum á lífríki og innleiða hvata til eldis á ófrjóum laxi og til eldis í lokuðum kvíum.
Í bókun bæjarráðs Fjarðabyggðar er hvatt til þess að komið verði upp eldi í Mjóafirði til að styrkja atvinnu í byggðinni sem eigi undir högg að sækja. Þar segir að íbúar séu jákvæðir gagnvart eldi enda hefur áður verið rekið eldi í firðinum.