Skip to main content

Engar mengunarmælingar í Seyðisfirði en þörfin til staðar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. júl 2023 14:04Uppfært 17. júl 2023 14:17

Engar mengunarmælingar eru framkvæmdar í Seyðisfirði og því alls óljóst um magn loftmengunar eða skaðlegra efna sem berast frá þeim metfjölda skemmtiferðaskipa sem þann fjörðinn sækja í sumar. Einu loftgæðamælingar austanlands eru í grennd við álver Alcoa/Fjarðaáls.

Þetta staðfestir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, við Austurfrétt en tilefnið er töluvert svört skýrsla umhverfissamtakanna Transport & Environment um þá miklu mengun sem hlýst af skemmtiferðaskipum í höfnum hinna ýmsu landa.

Þeim hefur fjölgað verulega á Íslandi á tiltölulega skömmum tíma og mælist Ísland í níunda sætinu í Evrópu hvað mengun af þessum völdum varðar en tölurnar eru frá því í fyrra. Það var metár á landsvísu en skipakomum hefur fjölgað verulega á yfirstandandi ári og má því búast við enn verri stöðu að ári liðnu.

Samkvæmt skýrslunni var brennisteinsdíoxíðmengun af völdum skemmtiferðaskipa hér á landi alls rúmlega 370 tonn 2022 en samkvæmt útreikningum RÚV er það svipað og álverið í Straumsvík losar á einum og hálfum mánuði.  Til frekari samanburðar þá stoppaði sami fjöldi skemmtiferðaskipa í höfnum Írlands og Íslands á síðasta ári en mengun þeirra þar í landi er helmingi lægri en hérlendis. Mengun hér af þessum völdum einnig meiri en í löndum á borð við Þýskaland og Svíþjóð.

Sannað er að brennisteinsdíoxíðmengun hefur neikvæð áhrif á heilsu manna. Slíkt getur hindrað öndun, ert augu og nef, valdið köfnun, hósta, öndunarsjúkdómum og óþægindum í brjósti. Slík mengun hefur jafnframt umtalsverð neikvæð áhrif á plöntur og dýr auk þess að geta valdið málmtæringu að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar.

Þorsteinn segir að engar mengunarmælingar séu gerðar á Austurlandi að svo stöddu sérstaklega vegna þessa. Umhverfisstofnun hafi á sínum tíma haft mælistöð í Seyðisfirði þegar Norræna var svo til eina skipið sem kom þangað reglulega en svo sé ekki lengur. Á þeim tíma hafi einu topparnir í brennisteinsdíoxíðmengun mælst þegar fiskimjölsverksmiðjan hafi verið að keyra á fullum afköstum.

„Það hefur ekkert verið mælt fyrir austan um tíma þó það sé sannarlega þörf á með tilliti til mikillar fjölgunar skemmtiferðaskipa. Það helgast af ýmsum þáttum eins og því að við höfum eytt miklum tíma í mælingar vegna gosanna á Reykjanesskaganum og þá er alltaf takmarkað til af fjármagni og fólki til starfa. Ég myndi sjálfur telja þarft að mæla á Seyðisfirði því fjörðurinn er þröngur og magn skaðlegra efna safnast auðvitað meira saman við slíkar aðstæður ef vindar eru ekki að blása. Við erum sem stendur að mæla á Akureyri og í Reykjavík og auk þess eru Faxaflóahafnir sjálfir með sína mælistöð. Faxaflóahafnir hafa ennfremur tekið upp nýtt kerfi að norskri fyrirmynd. Þannig fá skip sem standa sig vel í þessu tilliti fengið afslátt af hafnargjöldum en hin sem standa sig verr jafnvel fengið álag á gjöldin og það allt að 100 til 200 prósent. Þetta er kerfi sem er notað í velflestum höfnum Noregs en ekki annars staðar að svo stöddu.“

Aðspurður segist Þorsteinn ekki vita hvort til standi að setja upp mengunarmælingarbúnað á Seyðisfirði eða annars staðar á Austurlandi. Hann telur þó eðlilegt að það verði gert með tilliti til mikillar fjölgunar skipakoma. Allt strandi hins vegar á fólki og fjármagni. Hugsanlega megi þau sveitarfélög sem hafa verið að lokka til sína skemmtiferðaskip sjálf koma sér upp mengunarmælingarbúnaði sem Þorsteinn segir kosta svipað og góðan jeppa.

Af hálfu Múlaþings hefur síðustu misserin verið unnið að því að koma upp kerfi til að skip og bátar geti fengið rafmagn úr landi á Seyðisfirði í stað þess að brenna olíu. Ráð er gert fyrir að það kerfi komist í notkun snemmsumars á næsta ári.

Mengunarefni frá skemmtiferðaskipum eru bæði skammtíma og langtíma. Sót og svifryk getur haldist í lofti í sólarhring eða tvo eftir atvikum meðan ýmis önnur efni menga í langan tíma. Mynd aðsend.