Engar tilkynningar um hreyfingar eftir nóttina en mikið í ám

Engar tilkynningar hafa enn borist Veðurstofu Íslands um skriðuföll á Austfjörðum eftir mikla rigningu í nótt. Margar ár hafa hins vegar vaxið töluvert síðan í gærkvöldi.

„Það hafa engar tilkynningar komið um hreyfingar. Það hefur vaxið mikið í ám síðan í gærkvöldi, til dæmis á Eskifirði, en það er enginn litur á þeim,“ segir Sveinn Brynjólfsson á skriðuvakt Veðurstofunnar.

Mesta rigningin síðan á miðnætti er á Eskifirði 66 mm og 64 mm í Fáskrúðsfirði. Í Vestdal í Seyðisfjörður hafa fallið um 50 mm. Áfram er búist við mikilli úrkomu í dag. Í gærkvöldi voru húsin utan við björgunarsveitarhúsið á Seyðisfirði rýmd. Þar er fyrst og fremst um að ræða atvinnuhúsnæði.

Áfram er búist við mikilli rigningu á Austfjörðum, hvað mestri á svæðinu milli Langaness og Norðfjarðar. Landslagið ræður því hvar mest regn fellur. Líkur eru nú á að vindur snúi sér meira til norðurs þegar líður á daginn sem að einhverju leyti gæti breytt því hvar regnið kemur niður. Ekki er búist við að það dragi úr úrkomunni fyrr en í nótt. Hættustig almannavarna er í gildi, sem þýðir að viðbragðsaðilar eru tilbúnir þurfi að rýma hús eða grípa til sambærilegra aðgerða. Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi til miðnættis á Austfjörðum.

Fylgst er með stöðunni af hálfu Veðurstofunnar og almannavarna. „Enn sem komið er virðist allt innan marka. Við fylgjumst með mælum og snjóathugunarmenn okkar fara reglulega um til að athuga hvort það sjáist einhverjar spýjur.“

Eðlilega hefur vatnshæð lækkað í borholum á Seyðisfirði og Eskifirði. Staðan í þeim áður en úrkoman hófst í gær var lág. Þar er staðan enn innan marka. Sveinn bendir á að í sumum holum hækki hratt við úrkomu sem bendir til þess að regnið eigi greiða leið inn í þær meðan þróunin sé hægari í öðru sem aftur veiti betri vísbendingar um grunnvatnsstöðuna.

Mynd úr safni frá Ómari Bogasyni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.