Skip to main content

Engar tilkynningar um skriður eftir nóttina

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. sep 2025 09:34Uppfært 03. sep 2025 09:34

Ekki hefur orðið vart við nýjar skriður á Austfjörðum síðan um miðjan dag í gær en rof varð á árbökkum á nokkrum stöðum eftir mikla úrkomu. Dregið hefur verulega úr úrkomunni og smám saman minnkar skriðuhættan.


Í gær bárust tilkynningar um skriður á Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Sigurdís Björg Jónasdóttir, sérfræðingur á ofanflóðadeild Veðurstofunnar, segir að talið sé að aðeins hafi fallið litlar jarðvegsfyllur úr bökkum áa og lækja. Athugunarmenn eru á leið að kanna ummerkin frekar.

Sú staðreynd að varla hefur rignt á svæðinu síðan í júní gerir bakkana viðkvæmari. „Þá getur rofnað auðveldar úr bökkum þegar vex svona hratt,“ segir hún.

Sólarhringsúrkoman á Seyðisfirði í morgun var komin í 98 mm uppi í Botnum. Í Neskaupstað og Fáskrúðsfirði var hún tæpir 90 mm. Úrkoman á þremur sólarhringum á Seyðisfirði var 178 mm.

Eftir kvöldmat í gærkvöldi dró úr rigningunni á mið-Austfjörðum en hún færðist norðar á svæðið. Þannig er mesta úrkoma það sem af er þessum sólarhring í Vopnafirði, 38 mm. Þar er minni skriðuhætta og undir morgunn stytti upp.

Sigurdís segir að farið sé að minnka í ám, til dæmis á Eskifirði. Aðeins er gert ráð fyrir skúrum í dag og næstu daga. Jarðvegurinn nær smá saman jafnvægi aftur þegar hann drenast og við það dregur úr hættu á skriðum eða grjóthruni þótt það sé ekki úr sögunni.

Við Grjótá á Eskifirði um miðjan dag í gær. Mynd: Lögreglan á Austurlandi